Sjálfboðaliðar eru tilbúnir til að leggja á sig mikla erfiðisvinnu, til dæmis í tröllaframleiðslu, brennuhleðslu og fara jafnvel fjölda ferða uppá fjall með þungar byrðar í þeim eina tilgangi að sjónarspilið verði sem glæsilegast og allir geti notið sem mest. Hvert verk er unnið með gleði og ánægju og hvergi er spurt um borgun. Það er eitthvað sem draga má lærdóm af. Að temja sér jákvæðni í lífi og starfi og vinna jafnvel erfiðustu verk með bros á vör. Auðvitað koma þær stundir þar sem við þurfum að takast á við sorg og sút og ganga í gegnum dimma dali lífsins, og það geta reynst átök að takast við það allt saman. En svo oft mættum við mörg horfa með meiri jákvæðni og bjartsýni til allra þeirra verka sem við þurfum að sinna í amstri dagsins, vera þakklát fyrir þau verkefni sem manni er úthlutað. Það snýst nefnilega oftar en ekki um hvaða viðhorf við höfum til hlutanna. Í því samhengi minnist ég sögu sem segir af ungum presti sem var sagt, þegar hann kom til starfa, frá konu sem væri svo umtalsfróm að hún fyndi öllum eitthvað gott til málsbótar. Þetta verð ég að sannreyna, hugsaði presturinn. Og hann gerði sér ferð til hennar. Sem hann sat þarna í eldhúsinu og rakti garnirnar úr þeirri gömlu um sóknarbörnin, þá var það segin saga, alltaf hafði hún eitthvað gott um hvern og einn að segja. Þótt hann nefndi verstu skúrka og skíthæla, þá var hið sama uppi á teningnum, jákvætt gat hún fundið. Loks spurði klerkur, hálfpirraður: "En hvað segirðu þá um djöfulinn og athæfi hans og verk?" Þá þagnaði gamla konan um stund, en sagði svo með hægð: "Ja, ef sumir aðrir væru eins iðnir og hann, þá væri ýmisilegt á betri vegi í veröldinni".
Það er hollt að leita eftir því sem gott er og jákvætt eins og konunni gömlu var tamt. Páll posutli segir í Filippíbréfinu: "Verið glöð, ég segi aftur verið glöð, ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum". Við skulum taka þeirri hvatningu og hafa jákæðni sem mark og mið á nýju ári, þrátt fyrir allt krepputal og skattahækkanir. Það er okkur til heilla og öðrum til blessunar vegna þess að með því sáum við jákvæðum fræjum allt í kringum okkur og ef vel tekst til kveikjum mörg ljós af eigin ljósi án þess að ljósmagn okkar dofni. Megi góður Guð gefa okkur styrk og stuðning til þess. Gleðilega þrettándahátíð.
Sr Ólafur Jóhann Borgþórsson.
Greinin birtist í Þrettándablaði ÍBV.