Heimildarmynd um þrettándagleðina í Eyjum

Þrettándinn

- heimildarmynd um þrettándagleðina í Eyjum

 

Eyjafólkið Sighvatur Jónsson, Geir Reynisson og Hrefna Díana Viðarsdóttir unnu að heimildarmyndinni ásamt mörgum sem koma að undirbúningi þrettándagleði ÍBV. 

Tónlist myndarinnar er unnin af Halldóri Gunnari Pálssyni og Ragnhildi Gísladóttur. Bæði þekkja þau vel til þrettándagleðinnar í Eyjum. Tónlistin rammar inn spennu, dulúð, fegurð og söknuð. " Á þrettándanum kveðjum við jólin, þetta er ljúfsár stund," segir Halldór Gunnar.

Hrefna Díana er þjóðfræðingur og kemur að vinnu við handrit og heimildaöflun við framleiðslu myndarinnar. Stuðst er við BA ritgerð Hrefnu Díönu í þjóðfræði við Háskóla Íslands frá 2012 sem var rannsóknarritgerð um þrettándahátíðina í Vestmannaeyjum.

 

Upptökur frá þrettándanum undanfarin fimm ár

Í kringum þrettándann síðustu fimm ár hafa verið tekin upp viðtöl og myndefni frá undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar. Sumir sem rætt er við í myndinni hafa komið að starfinu í mörg ár og jafnvel áratugi.

Upptökurnar hafa varðveitt mikilvægar heimildir eins og sögu Sigríðar Ólafsdóttur, Sirrýjar í Gíslholti, sem tók þátt í gerð fyrstu tröllanna um 1960. Viðtalið við Sirrý var tekið upp á þrettándanum 2016 en hún lést rúmum tveimur árum síðar. Sirrý sagði frá því í viðtalinu hvernig málum var bjargað þegar vantaði ull við tröllagerðina. "Þá tók ég bara skærin og fór niður í kindakofa heim í Gíslholt til pabba og klippti neðan af kindunum eins og ég gat."

 

Kynslóðaskipti hjá Grýlu og Leppalúða

Í myndinni er einnig talað við Eyjamann sem hefur aðstoðað Grýlu á þrettándanum í hálfa öld, en hann tók við starfinu af föður sínum. Á síðasta þrettánda var maðurinn að jafna sig eftir aðgerð og fékk son sinn til að leysa sig af. Hið sama á við um eiginmann Grýlu en aðstoðarmaður Leppalúða var fastur við vinnu erlendis og fékk son sinn til að hlaupa í skarðið fyrir sig.

 

Eyjatröll á Ljósanótt í Reykjanesbæ

Í myndinni eru skoðuð tengsl Eyjatröllanna við Skessuna í Skessuhelli í Reykjanesbæ. Leiðir þessara kynjavera lágu saman á Ljósanótt í september 2008 þegar Skessan flutti í hellinn.

Eyjamaðurinn Ásmundur Friðriksson kom að Ljósanótt sem verkefnastjóri hjá Reykjanesbæ á þessum tíma. Hann fékk aðstandendur þrettándans í Eyjum til að flytja nokkur tröll frá Eyjum til Reykjanesbæjar til að taka þátt í viðburðinum í tengslum við flutning Skessunnar í Skessuhelli. Þetta mun vera í eina skiptið sem Eyjatröll hafa haldið í "útrás" til annars sveitarfélags.