Lög félagsins

 

Lög ÍBV-íþróttafélags

  1. gr.

 Félagið heitir ÍBV-íþróttafélag, með heimili og varnarþing í Vestmannaeyjum.

  1. gr.

Tilgangur félagsins er að vinna að eflingu íþrótta- og æskulýðsstarfssemi í Vestmannaeyjum. Félagið leggur metnað sinn í að vera í fremstu röð íslenskra íþróttafélaga og kappkosta að tryggja iðkendum sínum góða aðstöðu, þjálfun og umgjörð. Áhersla skal lögð á jafnrétti í starfi félagsins.

Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að:

a) Standi fyrir iðkun handknattleiks og knattspyrnu félaga sinna

b) Standa fyrir og taka þátt í íþróttamótum.

c) Halda uppi fræðslu um íþróttamál á hvern þann hátt, sem kostur er á hverjum tíma.

d) Standa fyrir að byggð verði fullkomin íþrótta- og félagsaðstaða.

e) Halda uppi öflugu og þroskandi félagslífi meðal félaga sinna.

f) Standa fyrir góðu og vönduðu æskulýðsstarfi þar sem áhersla er lögð á heilbrigt líf og forvarnir.

g) Vera fyrirmyndarfélag ÍSÍ og leggja áherslu á fagleg og góð vinnubrögð í fræðslu og uppeldisstarfi sínu.

h) Aðalstjórn skal tryggja að jafnréttisstefna félagsins sé virt.

i) Félagið skal standa vörð um gildi Þjóðhátíðar og þann menningararf sem Þjóðhátíð Vestmannaeyja er.

       3.  gr.

Félagið er myndað af einstaklingum í íþróttadeildum félagsins, sem hafa sameiginlega aðalstjórn. Félagi getur hver sá orðið sem skráður er í félagið og greiðir félags- og/eða æfingagjöld til þess. Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt aðalstjórn eða með tölvupósti á ibv@ibv.is.

Eftirtaldir aðilar eru félagar í ÍBV íþróttafélagi:

 - Allir iðkendur í deildum félagsins.

- Heiðursfélagar.

- Aðrir sem greitt hafa félagsgjald til aðalstjórnar.

4.  gr.

Aðalstjórn fer með æðsta vald félagsins á milli aðalfunda.

Innan félagsins skulu vera tvær deildir, handknattleiks- og knattspyrnudeild. Þá er heimilt að hafa innan hverrar deildar sérstök ráð s.s. karla, kvenna og unglingaráð.

Aðalstjórn skipar stjórn knattspyrnuráðs og handknattleiksráðs.  Að jafnaði skal skipa stjórnir ráða eftir að reglulegu starfstímabili deilda lýkur. Aðalstjórn skal funda með stjórnum knattspyrnu- og handknattleiksráða  en ekki sjaldnar en tvisvar sinnum á ári. Fyrri fundurinn skal vera á tímabilinu janúar-apríl og sá seinni á tímabilinu september-desember. Þar skulu ákvarðanir aðalstjórnar kynntar og stefnumarkandi ákvarðanir ræddar. Þessir fundir skulu skráðir í gerðabók aðalstjórnar.

5.  gr.

Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Reikningar skulu liggja skoðaðir frammi 7 dögum fyrir aðalfund félagsins.

Framkvæmdastjóri er einn með prókúru fyrir félagið og getur einn skuldbundið félagið fyrir hærri fjárhæðir en 1% af veltu deilda í ársreikningi fyrra árs. Framkvæmdastjóri verður að samþykkja með undirritun alla samninga sem félagið gerir og eru til lengri tíma en þriggja mánaða.

6.  gr.

Aðalstjórn skal skipuð 5 mönnum, þ.e. formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og einum meðstjórnanda ásamt tveimur varamönnum.

Þá skulu fulltrúar deilda eiga rétt til að sitja fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt.

Aðalstjórn skal kosin á aðalfundi félagsins og skal formaður kosinn sérstaklega. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn og ganga úr stjórninni á víxl, en formaður er kosinn árlega á aðalfundi.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og kýs varaformann, ritara og gjaldkera. Á aðalfundi skal einnig kjósa tvo skoðunarmenn.

a.Formaður kosinn til eins árs í senn.

b.Fjórir meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára þannig að árlega gangi tveir úr stjórninni á víxl.

c.Tveir varamenn skulu kosnir til tveggja ára þannig að árlega gengur einn varamaður úr stjórninni á víxl.

7.  gr.

Aðalstjórn skal ráða sér framkvæmdastjóra til starfa, sem sér um daglegan rekstur félagsins og ber ábyrgð á starfsmannahaldi og bókhaldi félagsins og að það sé fært reglulega.

Á aðalfundi skal kjósa fulltrúaráð skv. tillögu aðalstjórnar sem skal starfa skv. reglugerð, sem samþykkt er á aðalfundi þess. Fulltrúaráð skal skipað 20 einstaklingum.

Aðalstjórn skal leggja eftirtalin mál fyrir fulltrúaráðið til umsagnar:

    1. Tillögu um félagsslit.

2. Sölu og kaup fasteigna, bifreiða og tækja, yfir 20 m.kr..

3. Meiriháttar byggingaframkvæmdir, utan- sem innanhússframkvæmdir, yfir 20 m.kr.

4. Veðsetningu eigna félagsins, yfir 20 m.kr.

5. Aðrar stórar ákvarðanir er snúa að fjármálum, yfir 20 m.kr. og starfsemi félagsins.

Aðalstjórn, eða nefnd skipuð af aðalstjórn, gerir tillögu til aðalfundar um reglugerð, sem fulltrúaráð starfar eftir og skal þar m.a. kveða á um aðild að fulltrúaráðinu og verkefni þess.

Fulltrúaráð skal skipa sér stjórn 5-7 einstaklinga, þar sem kosinn er formaður, varaformaður og ritari auk meðstjórnenda.

Fulltrúaráð getur skotið þeim málum, sem aðalstjórn leggur fyrir það, til aðalfundar eða félagsfundar og er niðurstaða fundarins um mál endanleg sbr. reglugerð um fulltrúaráð ÍBV íþróttafélags samþykkt á aðalfundi.

Fulltrúaráð skal funda að lágmarki tvisvar á ári, einu sinni á tímabilinu janúar-maí og einu sinni á tímabilinu september-desember.

Fulltrúaráð skal halda fundargerðir um alla fundi ráðsins.

Aðalstjórn skal skipa fjárhagsnefnd til eins árs í senn á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund. Í nefndinni eiga sæti fimm einstaklingar. Tveir þeirra skulu vera úr aðalstjórn ÍBV. Annar þeirra skal vera gjaldkeri aðalstjórnar og er hann formaður nefndarinnar. Hlutverk fjárhagsnefndar er að veita aðalstjórn, deildum og nefndum félagsins fjárhagslegt aðhald, sbr. reglugerð um fjárhagsreglur. Aðalstjórn gerir tillögur til aðalfundar um reglugerð, sem fjárhagsnefnd og deildir félagsins starfa eftir.

Fjárhagsnefnd skal halda fundargerðir um alla fundi nefndarinnar.

Aðalstjórn skipar framkvæmdastjórn/mannvirkjanefnd sem hefur umsjón með rekstri íþróttahúsa og íþróttasvæðis félagsins. Nefndin skal skipuð 3-5 aðilum sem skipta með sér verkum á fyrsta fundi nefndarinnar.

Framkvæmdastjórn/mannvirkjanefnd skal halda fundargerðir um alla fundi nefndarinnar.

 

Aðalstjórn skipar Þjóðhátíðarnefnd fyrir 1. desember ár hvert, og skal skipan hennar kynnt á aðalfundi félagsins. Nefndin skal skipuð 5-7 aðilum sem skipta með sér verkum á fyrsta fundi nefndarinnar. Þjóðhátíðarnefnd skal halda reglulega fundi og skal halda um það sérstaka gerðabók. Þjóðhátíðarnefnd skal leggja fram fjárhagsáætlun fyrir aðalstjórn, eigi síðar en 1. apríl ár hvert.

Aðalstjórn ber að samræma starfsemi félagsins, vinna að eflingu þess og gæta hagsmuna þess í hvívetna.

Aðalstjórn er málsvari félagsins út á við og skýrir sjónarmið þess á þeim vettvangi.

Aðalstjórn ákveður félagsgjald í upphafi starfstímabils og heldur skrá yfir alla félagsmenn.

Aðalstjórn skal skipa þær nefndir sem hún telur nauðsynlegar hverju sinni.

Aðalstjórn er heimilt að víkja mönnum úr félaginu eða setja þá í keppnisbann álíti hún framkomu þeirra vítaverða og brjóta í bága við anda íþróttahreyfingarinnar. Félagsmaður hefur andmælarétt og getur óskað eftir fundi með meirihluta stjórnar til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Aðalstjórn skal halda stjórnarfundi reglulega og minnst einu sinni í mánuði og skal halda um þá sérstaka gerðarbók.  Enga fullnaðarákvörðun getur aðalstjórn tekið nema með samþykki meirihluta aðalstjórnarmanna.

Aðalstjórn skal halda gerðabók um alla fundi með ráðum og nefndum félagsins. Umræddar gerðabækur skulu vera aðgengilegar fyrir félagsmenn á skrifstofu félagsins.

Aðalstjórn hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og ræður starfsemi þess.

8.  gr.

Aðalfundur félagsins er æðsta vald félagsins. Hann skal halda einu sinni á ári, eigi síðar en 1. maí ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með minnst tveggja og mest fjögurra vikna fyrirvara í með almennri auglýsingu í fjölmiðlum í Vestmannaeyjum. Aðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað.

Kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi hafa allir félagsmenn skv. 3. gr. sem náð hafa 18 ára aldri.

Tillögur að lagabreytingum skulu berast til aðalstjórnar minnst 10 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Allar tillögur er varða meiriháttar breytingu á starfsemi félagsins skulu jafnframt berast aðalstjórn með sama fyrirvara. Geta skal þess í fundarboði að tillögur skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn viku fyrir aðalfund. Endurskoðaðir ársreikningar deilda og félagsins í heild sinni skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund til kynningar fyrir félagsmenn.

Framboð til aðalstjórnar skulu berast til framkvæmdastjóra félagsins minnst 10 dögum fyrir boðaðan aðalfund.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Fundur settur.

2. Kosinn fundarstjóri og fundarritari.

3. Skýrsla aðalstjórnar flutt.

4. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar aðalstjórnar og einstakra deilda eða ráða ásamt heildarreikningi fyrir allt félagið.

5. Umræða og atkvæðagreiðsla um skýrslu aðalstjórnar, deilda og reikninga.

6. Lögð fram fjárhagsáætlun næsta starfsárs fyrir félagið.

7. Lagðar fram tillögur að lagabreytingum sem löglega eru fram komnar.

8. Aðrar tillögur sem borist hafa stjórn eða aðalfundi með löglegum hætti, umræður.

9. Afgreiðsla á fyrirliggjandi tillögum.

10. Kosning formanns og stjórnar.

11. Kosning tveggja skoðunarmanna.

12. Önnur mál.

13. Fundarslit.

9.  gr.

Á aðalfundi ræður meirihluti greiddra atkvæða úrslitum mála. Þó þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breyta lögum félagsins, veita aðalstjórn heimild til að selja eða veðsetja fasteignir og til að leggja félagið niður. Slíkar tillögur má einungis bera fram á aðalfundi félagsins enda hafa þær borist aðalstjórn minnst tveimur vikum fyrir fund. Heimilt er að taka mál á dagskrá aðalfundar með samþykki 2/3 hluta fundarmanna, þrátt fyrir að ekki hafi verið gert ráð fyrir því í dagskrá fundarins, svo fremi að ekki sé um að ræða lagabreytingar eða mál er varða meiriháttar breytingar/skuldvindingar á starfsemi félagsins.

Kosningar skulu vera skriflegar og leynilegar ef þess er óskað. Falli atkvæði jöfn skal endurtaka atkvæðagreiðsluna einu sinni. Verði aftur jafnt skal varpa hlutkesti.

Verði tillaga um félagsslit samþykkt á aðalfundi skal boðað til framhaldsaðalfundar eða nýs félagsfundar eftir minnst tvær vikur en innan fjögurra vikna. Komi til félagsslita skulu atkvæðisbærir félagsmenn taka ákvörðun um ráðstöfun eigna og tekna félagsins og skal ráðstafa því til íþrótta- og æskulýðsmála innan Vestmannaeyja.

 

10.  gr.

Almennan félagsfund skal halda a.m.k. einu sinni á ári á tímabilinu 15. október – 15. nóvember ár hvert.

Aðalstjórn skal einnig boða til almenns félagsfundar ef:

1) meirihluti aðalstjórnar telur þörf krefja

2) minnst 1/10 hluti atkvæðisbærra félagsmanna krefst þess skriflega eða

3) félagsslit hafi verið samþykkt á aðalfundi

Almennur félagsfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað skv. 9. gr. Í fundarboði skal þess skýrt getið hvaða málefni fundinum er ætlað að fjalla um. Ekki er heimilt að afgreiða aðrar tillögur eða málefni á almennum félagsfundi en getið er í fundarboði.

Almennur félagsfundur skal haldinn minnst tveimur vikum og mest fjórum vikum frá því að lögmæt krafa kom fram um að fundur skuli haldinn. Almennur félagsfundur skal boðaður með minnst viku fyrirvara.

11.  gr.

Meginlitur aðalbúninga félagsins er hvítur. Meginlitir í varabúningum félagsins skulu vera blár og/eða svartur.

Aðalstjórn skal setja reglugerð um keppnisbúninga, sem hafi að geyma leiðbeinandi reglur um útlit þeirra og hvaða undantekningar verði samþykktar, sbr. reglugerð um keppnisbúninga ÍBV íþróttafélags.

12.  gr.

Merki félagsins er merki Íþróttabandalags Vestmannaeyja. Merkið er svartur bogadreginn þríhyrningur með hvítum stöfum ÍBV ásamt þremur hvítum bárum aðgreindum frá stöfum með hvítu bogadregnu striki. Þá er hvít rönd dregin eftir jaðri merkisins.

ÍBV-íþróttafélag er meðlimur í Íþróttabandalagi Vestmannaeyja. Félagið nýtur þeirra réttinda og ber þær skyldur sem kveðið er á um í lögum Íþróttabandalags Vestmannaeyja.

13.  gr.

Aðalstjórn skal setja sérstaka reglugerð um veitingar viðurkenningar fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

14.  gr.

Með lögum þessum falla eldri lög félagsins úr gildi. Um þau atriði sem ekki eru tekin fram í lögum þessum, gilda ákvæði í lögum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, eftir því sem við getur átt.

 

Breytt á aðalfundi 9. maí 2023