Sagan

   Hermann Kr. Jónsson tók að sér að skrifa um sögu knattspyrnunnar í Eyjum í afmælisrit ÍBV sem gefið var út 1995. Nú er sagan komin hér inná vefinn og má nálgast hana hér að neðan. Saga þessi nær semsagt allt til ársins 1994. Eftir á að skrá söguna frá þeim tíma og verður það vonandi gert fljótlega.

 

 

Saga knattspyrnunnar í Eyjum
 

 

Ekki er vitað með vissu hvenær knattspyrnan nam land hér í Vestmannaeyjum en þó er víst að ekki leið á löngu frá því þessi vinsæla íþrótt var kynnt til sögunar á Íslandi að ungir piltar í Eyjum voru teknir til við að sparka leðurbolta milli marka á afmörkuðum keppnisvelli. Knattspyrna var að fróðra manna áliti fyrst iðkuð hér skömmu eftir aldamótin og talið að bolta hafi fyrst verið spyrnt á Flötunum. Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum, sá merki sagnaþulur, hefur í grein sagt að fyrsta fótboltaæfingin hér í Eyjum hafi farið fram á flötinni í Lyngfellisdal um mánaðamótin ágúst-september 1906. Vitað er að Björgúlfur Ólafsson læknir kenndi hér knattspyrnu og sund sumarið 1903. Íþróttafélagið Þór var stofnað 1913, Knattspyrnufélag Vestmannaeyja starfaði í mörg ár og 1921 var Knattspyrnufélagið Týr stofnað.Talið er að skipulögð íþróttastarfsemi hafi hafist 1922 en á árunum 1929-1945 var starfandi hér Íþróttaráð Vestmannaeyja (ÍRV). Það var skipað fulltrúum frá íþróttafélögunum í bænum, Tý og Þór, tveir frá hvoru félagi og formaður ráðsins sá fimmti. Fyrsti formaður ÍRV var Páll Kolka læknir sem gengdi formennsku í ráðinu til ársins 1934. Þá tók við Þorsteinn Einarsson, síðar Íþróttafulltrúi ríkisins, og af honum Friðrik Jesson. Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) er síðan stofnað í maí 1945. Fyrsti formaður ÍBV var Vigfús Ólafsson kennari frá Gíslholti. Innan ÍBV hefur síðan verið kosið sérstakt knattspyrnuráð (KRV) sem hefur farið með stjórn knattspyrnumála á vegum ÍBV.

 

Upphafið.

 

   Fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu var haldið árið 1912 í Reykjavík og þóttu það mikil tíðindi þá að lið frá Vestmannaeyjum tilkynnti sig og mætti til keppninnar. Í þessu móti, sem markaði upphaf mótahalds knattspyrnuliða á Íslandi og hefur síðan í árana rás þróast upp í það geysiumfangsmikla Íslandsmót sem nú er, voru aðeins þrjú keppnislið KR, Fram og ÍBV (sem þá nefndist KV). Það tók knattspyrnumenn KV tvo daga að komast til Reykjavíkur. Þeir sigldu með dönsku skipi m/s Pexvie til Stokkseyrar og genLeiðin sem þeir fóru.gu síðan með pjönkur sínar á bakinu sem leið lá til Selfoss þar sem gist var um nóttina í Tryggvaskála. Ekki voru knattspyrnukapparnir slæptari en það eftir ferðina að þeir köstuðu sér til sunds í Ölvusána og þótti heimamönnum það hreystilega gert. Daginn eftir var farið með tveimur póstvögnum til Reykjavíkur en menn urðu þó að ganga upp Kambana.                

  

Eyjamenn léku fyrst við KR og töpuðu leiknum 0-3 í geysilega hörðum leik sem tók svo illan toll af liði KV að þeir höfðu ekki nægilega marga leikmenn ósára til að geta leikið síðari leikinn sem átti að vera móti Fram. Í samtímaheimildum má á einum stað lesa svo um þennan leik: "Meira var hugsað um að hlaupa á manninn en leika boltanum, sumir voru brenglaðir fyrir leikinn og sumir orðið að ganga úr leik meðan á leik stóð svo að uppi stóðu aðeins sjö leikmenn, svo hætt var við frekari keppni og farið með næsta póstskipi til Eyja." Skilt er hér að geta þeirra manna sem með þessum hætti lögðu grundvöllinn að knattspyrnusögu Eyjanna. Upphafsmannanna sem lögðu svo mikið á sig til þess að keppa í íþrótt sinni á fyrsta Íslandsmótinu. Markvörður var Steingrímur Magnússon, vinstri bakvörður Sæmundur Jónsson, hægri bakvörður Árni Sigfússon, hægri framvörður Jón Ingileifsson, mið framvörður Árni J. Johnsen, vinsri framvörður Ársæll Sveinsson, framherjar Ágúst Eiríksson, Árni Gíslason, Jóhann A. Bjarnasen, Eyjólfur Ottesen og Georg Gíslason, varamaður Lárus J. Johnsen.

   Næstu tvö árin, 1913 og 1914, er ekki keppt á Íslandsmótinu því Fram var eina félagið sem tilkynnti sig til leiks. Næstu árin þar eftir er Íslandsmótið keppni Reykjavíkurliðanna Fram, KR, Vals og Víkings eða allt til ársins 1926 að Vestmannaeyingar mæta aftur til keppni við Reykjavíkurrisana. Eyjamenn töpuðu fyrir KR 2-6, Fram 1-2 og Víkingi 1-4 en gerðu jafntefli við Val 5-5 og lentu í fjórða sæti með 1 stig. Aftur eru Eyjamenn mættir á Íslandsmótið 1929 og enn batnar árangurinn. Liðið tapaði fyrir KR 0-3, fyrir Val 1-4, sigraði Víking 4-1 og Fram 2-1. Hlutu þriðja sætið með 4 stig. Aftur lentu Eyjamenn í þriðja sæti árið eftir 1930. Töpuðu fyrir Val 1-3 og KR 2-4 en sigruðu Víking 3-2 og Fram 5-1. Hlutu 3 stig. Nú verður hlé á þátttöku Eyjamanna fram til ársins 1934 og þá lentu þeir í fjórða sæti með 2 stig. Töpuðu fyrir KR 1-5, Val 0-6 og Fram 1-3 en sigruðu Víking 3-1.  Síðan líða mörg ár án þess hinir galvösku Eyjamenn mæti til leiks eða allt fram til ársins 1942. Þá tapast leikir við Val 1-4, Fram 0-2 og KR 1-2 en sigur vannst á Víkingi 2-1. Tvö stig og fjórða sætið í keppninni. 1943 gengur liðinu illa og nær aðeins einu stig og lendir í neðsta sæti fimm liða. Leikir tapast móti Val 1-5, Fam 2-6, KR 1-3 en leikur við ÍBA endar jafntefli 1-1.

   Þetta er árangur knattspyrnumanna úr Vestmannaeyjum á Íslandsmótinu í knattspyrnu fram að stofnun ÍBV árið 1945. Hér hefur aðeins verið tíundaður árangur á Íslandsmóti og stuttlega sagt frá fyrsta leiknum. Hinsvegar er vitað að Eyjamenn ferðuðust oftar á þessum árum til fastalandsins til þess að etja kapp við þarlenda knattspyrnumenn. M.a. er til skrásett frásögn Árna Árnasonar símritara af eftirminnilegri knattspyrnukeppni í Reykjavík árið 1920. Frásögn þessi er varðveitt í Blik.

   Vert er að vekja sérstaka athygli á að Vestmannaeyingar eitt liða utan höfuðborgarinnar mætir í keppnina allt fram til ársins 1932 að Akureyringar senda lið í mótið. Þetta segir okkur hvað þáttur knattspyrnumanna okkar er stór í sköpun knattspyrnusögunnar á Íslandi.

 

Fyrstu ár ÍBV.

 

   Knattspyrnan á erfitt uppdráttar á fyrstu árum ÍBV. Aðstaða til æfinga var þá frekar slæm og erfitt að fá menn til æfinga vegna vinnu. Sem fyrr og síðar snérist hér allt um fiskvinnslu og fiskveiðar. Vetrarvertíð stóð yfir til aprílloka og allar æfingar því útilokaðar þar sem flestir knattpyrnumenn Eyjanna voru sjómenn eða störfuðu við fiskvinnslu eða þjónustu henni tengdri. Í maímánuði stunduðu fjöldi báta dragnótaveiðar síðan tóku við síldveiðar fyrir norðan land og megin þorri knattspyrnumanna byggðarlagsins á sjónum. Á þessum árum gilt lögmálið vinnan fyrst, íþróttirnar svo. Knattspyrnuiðkun Eyjamanna einskorðast því við innbyrðiskeppni félagana hér á haustmánuðum.

   Tók nú við löng og stopul bárátta ÍBV í 2. deildinni. Árið 1955 var tekið upp nýtt fyrirkomulag í 2. deildinni, keppt svæðisbundið. ÍBV og  Íþróttabandalag Suðurnesja voru einu liðin sem þetta ár tóku þátt á okkar svæði. Leikið var í Keflavík og lauk fyrri leiknum með jafntefli en ÍBS vann síðari leikinn  3-0. Á þessu ári verður til fyrsta eiginlega knattsprynuráð ÍBV skipað þeim Ingólfi Arnarssyni form., Jóni Kristjánssyni, Óskari Haraldssyni, Kristleifi Magnússyni og Jóhanni Ólafssyni. 1956 var leikið í Hafnarfirði. ÍBV vann Þrótt 3-0 og ÍBH 4-2 en tapaði fyrir ÍBK 0-2. Mikill áhugi er á knattspyrnunni þessi ár og 1956 eru skráðir 150 iðkendur. Ingólfur Arnarson er þjálfari á þessum árum og gerði góða hluti fyrir knattspyrnuna í Eyjum. 1957 er malarvöllurinn í Löngulág tekinn í notkun og fyrsti deildarleikur ÍBV þar var gegn Víkingi og lauk honum með jafntefli 2-2 en síðan fylgdu í kjölfarið þrír tapleikir í 2. deildinni, fyrir ÍBK, Suðurnesjum og Þrótti. 1958 er ekki minnst einu orði á knattspyrnu í ársskýrslu ÍBV utan það að talið er að 59 iðki knattspyrnu á vegum bandalagsins.

 

Aukin áhersla á yngri flokka.

 

   Á þessum árum gætir breyttra áherslna hjá ÍBV og uppbygging yngri flokka hefst með auknum krafti. Fenginn er hingað Ellert Sölvason, þekktur og snjall knattspyrnumaður úr Val og landsliðinu. Sagan segir okkur nú að þessi ráðning Ellerts Sölvasonar hafi lagt grunnin að þeirri framþróun sem átti sér stað í knattspyrnni hér á næstu árum. Ellert reyndist frábær þjálfari og laðaði til sín fjölda ungra stráka sem hann efldi til dáða og afreka á knattspyrnuvellinum sem svo nokkrum árum síðar færði okkur langþráð sæti í 1. deildinni. Árið 1960 tók ÍBV aftur þátt í 2. deildinni, sigraði Breiðablik 4-1 en tapaði fyrir Reyni 4-5 og ÍBH 3-6. En þetta ár var 2. flokkur ÍBV, strákarnir hans Lolla sendir á Íslandsmótið. Liðið lék þrjá leiki og stóð sig mjög vel. Tapaði að vísu fyrsta leiknum fyrir Víkingi 1-2, sigraði síðan Þrótt 2-1 og gerði jafntefli við Val 3-3. 1961 er síðan ár yngri flokkana og stærstu skefin eru stigin til framtíðarinnar. Ár sem seint mun gleymast þeim er fylgdust með knattspyrnunni á þessum árum. Ákveðið var að taka ekki þátt í 2. deildinni en leggja áhersluna á 2. flokkinn og að auki var nú 3. flokkur ÍBV sendur á Íslandsmótið. 2. flokkur stóð sig frábærlega vel, vann KR 6-1 og Val 3-1 en gerði jafntefli við ÍBK 1-1. Lék síðan til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn við Þrótt úr Reykjavík og þá gekk nú mikið á, þurfti tvo leiki til að knýja fram úrslit. Fyrri leiknum lauk með jafntefli 2-2 en í síðari leiknum knúðu Þróttarar fram sigur 1-3. Svo mikla athygli vöktu þessir leikir að síðari leiknum var lýst beint í Ríkisútvarpinu af hinum kunna útvarpsmanni Sigurði Sigurðssyni og er það í fyrsta og eina skiptið sem leik í 2. flokki er lýst í útvarpi. Í þessu liði voru m.a. kapparnir Viktor Helgason, Aðalsteinn Sigurjónsson, Baldur Jónsson, Sigurður Ingi Ingólfsson, Bragi Steingrímsson, Atli Einarsson, Ólafur Óskarsson, Bjarni Baldursson, Sigmar Pálmason, Guðni Ólafsson og Helgi Sigurlásson. 3. flokki ÍBV gekk mjög vel á sínu fyrsta móti, vann þrjá leiki en tapaði tveimur. Þetta sumar komu hingað tvö erlend unglingalið til keppni við okkar stráka, Lyngby frá Danmörku og Blau Weiss frá Þýskalandi, þótti það tíðinum sæta á sínum tíma.

   Strákarnir sem hér að ofan eru nefndir skipuðu síðan kjarnan í því liði sem árið 1967 vann langráðan sigur í 2. deildinni og færði ÍBV í flokk með þeim bestu. Til viðbótar þeim er skylt að geta Guðmundar Þórarinssonar (Týssa), Páls Pálmasonar, Haralds Júlíussonar, Erlends Geirs Ólafssonar, Sævars Tryggasonar og þeirra bræðra frá Sandprýði, Vals og Þorkels. Þjálfari liðsins var þá Rudolf Krcil, tékkneskur þjálfari sem hingað kom árið 1966 og skilaði frábærum árangri. Það átti þó ekki fyrir honum að liggja að fylgja liðinu upp í 1. deild, hann var ekki endurráðin.

 

Gullár yngri flokkana.

 

   Segja má að frá því strákarnir hans Lolla hófu framfarasókn knattspyrnunnar hjá ÍBV hafi leiðin leigið uppávið og næsta 20 ára tímabil var mjög árangursríkt hjá ÍBV. Félagið komst í fremstu röð knattspyrnufélaga á landinu titlarnir tóku að streyma heim til Eyja. Sérstaklega er minnisstætt sigurárið mikla 1970 en það ár færðu knattspyrnumenn okkar hingað heim til Eyja helming þerra verðlaunagripa sem um var keppta á vegum KSÍ. Það afrek verður ekki auðveldlega endurtekið. Við skulum líta á afrekalista yngri flokka ÍBV:

 

1964:

4. flokkur Íslandsmeistari.

1967:

4. flokkur Íslandsmeistari.

1969:

2. flokkur Íslandsmeistari.

5. flokkur Íslandsmeistari.

2. flokkur Bikarmeistari.    

1970:

2. flokkur Íslandsmeistari.

3. flokkur Íslandsmeistari.

4. flokkur Íslandsmeistari.

2. flokkur Bikarmeistari.

1971:

3. flokkur Íslandsmeistari.

1972:

2. flokkur Íslandsmeistari.

2. flokkur Bikarmeistari.

1975:

2. flokkur Íslandsmeistari.

1976:

5. flokkur Íslandsmeistari.

1980:

2. flokkur Íslandsmeistari.

 

 

1. deildin.

 

   Deildakeppni í knattspyrnunni var tekin upp 1955, fyrst aðeins tvær deildir. ÍBV strögglaði í 2. deildinni lengi vel og gengi liðsins á þessum árum ansi sveiflukennt. Ár komu sem ÍBV tók ekki þátt í deildarkeppninni en einnig lék liðið ófáa úrslitaleiki um sæti í 1. deild ýmist við Þróttara eða Akureyringa. Það var svo sem fyrr er getið árið 1967 sem ÍBV vann sér langþráðan keppnisrétt í 1. deild og þá var nú kátt í Eyjum. Mikil vakning átti sér stað í knattspyrnunni og markið sett hátt. Menn gengu fullir bjartsýni og áhuga til komandi verkefna: að tryggja ÍBV áframhaldandi sess meðal þeirra bestu í knattspyrnunni. Hreiðar Ársælsson, fyrrum landsliðsbakvörður úr KR, var ráðinn þjálfari.

   Og svo rann dagurinn upp. Sólríkur laugardagur í maí 1968 en strekkings vindur af norðri. Fyrsti leikur ÍBV í 1. deild og mótherjarnir engir aðrir en Valur, Íslandsmeistarar fyrra árs. Eyjastákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu meistarana léttilega 3-1 í leik sem aldrei gleymist þeim fjölmörgu áhorfendum sem lögðu leið sína á Hásteinsvöllinn þennan maídag fyrir 27 árum. Enginn hafði búist við þessum úrslitum þó svo menn hafi verið bjartsýnir í brekkunni og á hólnum og vonast eftir góðri frammistöðu frá strákunum. Valsmenn urðu fyrri til að skora, úr vítaspyrnu, en Eyjamenn létu mótlætið ekkert á sig fá og tókst að jafna. Guðmundur Þórarinsson (Týssi) lét allt í einu vaða á markið af um 40 metra færi og boltinn hafðnaði í netinu hjá Sigurði Dagssyni. Hafði Týssi þar með skorað fyrsta mark ÍBV í 1. deildinni og gat sá heiður ekki fallið betri knattspyrnumanni í skaut. Staðan í hálfleik í þessum sögufræga leik var því 1-1 en í síðari hálfleik voru Eyjamenn óstöðvandi og léku þeir Valsmennina oft grátt. Sigmar Pálmason (Bói) kom ÍBV yfir 2-1 með stórfenglegu marki frá endamarkalínu, úr að því er virtist vita vonlausu færi. Bói skoraði svo annað mark og gulltryggði ÍBV sigurinn.

   Gífurleg stemmning var á vellinum og var leikmönnum fagnað innilega í leikslok. Leikmenn tolleruðu Hreiðar þjálfara. Það gekk svo á ýmsu hjá ÍBV þetta fyrsta keppnistímabil. Liðið vann fjóra leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði sex leikjum. Hlaut því 9 stig og hélt sæti sínu örugglega. Rétt er hér að geta þeirra leikmanna sem spiluðu þennan fyrst leik ÍBV í 1. deild: Páll Pálmason, Þorkell Húnbogason, Sigurður Ingi Ingólfsson, Valur Andersen, Viktor Helgason, Guðmundur Þórarinsson, Haraldur Júlíusson, Sævar Tryggvason, Aðalsteinn Sigurjónsson, Erlendur Geir Ólafsson, Sigmar Pálmason.

 

"Gullöldin."

 

  Strax á öðru ári liðsins í 1. deild festi það sig enn betur í sessi meðal þeira bestu og lenti í fjórða sæti. Árið 1970 var gengið heldur slakara, sjöunda sætið en betri tíð í vændum því árin 1971 og 1972 voru virkilega eftirminnileg. Á þessum árum átti ÍBV sitt besta knattspyrnulið að mati þess sem sem þessar línur festir á blað. Og veit ég að margir gætu tekið undir þá skoðun. 1971 lék ÍBV mjög vel og vann hvern glæstan sigurinn á eftir öðrum, vann 9 leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði aðeins þremur leikjum. Liðið skoraði 37 mörk en fékk á sig 19 mörk. En þetta dugði ekki til meistaratitils. Ef núverandi fyrirkomulag hefði verið á 1. deildinni hefði ÍBV orðið meistari þetta ár en ÍBK náði sömu stigum og ÍBV en með lakar markahlutfall og því þurfti hreinan úrslitaleik milli þessara liða á Laugardalsvellinum. Sá leikur varð mikil sorgarsaga fyrir ÍBV því Keflvíkingarnir sigruðu með yfirburðum 4-0 og hömpuðu Íslandsbikarnum. Við vorum frekar lúpulegir Eyjamennirnir sem yfirgáfum Laugardalinn þennan dag, þ.e.a.s. allir nema einn sem leyfði sér að brosa örlítið útí annað. Það var gjaldkeri ÍBV, Atli Elíasson, sem hafði í brjóstvasanum vænan tékka því hátt í 10.000 áhorfendur voru á leiknum. Atli, eins og við hinir, hefði þó vafalaust viljað skipta á tékkanum og bikarnum. Árið eftir, 1972, var enn gerð hörð atlaga að Íslandsbikarnum en án árangurs. Þó stóð liðið sig mjög vel þetta keppnistímabil, lenti í öðru sæti með 18 stig en Fram varð meistari með 22. stig. Mikið var skorað þessi ár og 1972 varð Tómas Pálsson markakóngur Íslandsmótsins með 15 mörk.  Liðið í heild skoraði 37 mörk en fékk á sig 22. Á þessum gullaldarárum var Viktor Helgason þjálfari liðsins, snjall þjálfari sem hafði einstakt lag á leikmannahópnum og var mjög samstarfsgóður.

   Menn voru bjartsýnir og stórhuga í byrjun árs 1973, sami þjálfari, sömu leikmenn og sömu forsvarsmenn. Nú átti að leggja allt í sölurnar til þess að vinna Íslandsmótið. En þá tók náttúran í taumana svo um munaði. Eldgos hófst á Heimaey 23. janúar 1973. Um tíma ríkti mikil óvissa um framtíð ÍBV og við sem vorum til forustu valdir settumst á rökstóla til þess að ræða málin. Sú ákvörðun var tekin strax að taka þátt í 1. deildinni og allir voru ákveðnir í því að leggja allt sitt af mörkum til þess að halda merki ÍBV á lofti við þessar óvenjulegu og vægast sagt óbjörgulegu aðstæður. Leikmenn voru tvístraðir út um víðan völl á suð-vesturhorninu, enginn heimavöllur, engin æfingaaðstaða. Viktor Helgason gat ekki haldið áfram með liðið og var ráðinn í hans stað skotinn Duncan McDowell. Knattpyrnuráðsmenn voru eins og útspýtt hundsskinn um borg og bæi til þess að útvega æfingapláss og ástandið var svo um tíma að leikmenn voru boðaðir á Hlemm og þaðan var þeim ekið þangað sem æfingin var hverju sinni. Kom það fyrir að ekki tókst að útvega æfingavöll fyrr en hálftíma áður en leikmenn mættu á Hlemm. Allt bjargaðist þetta þó með undraverðum hætti og er ÍBV í stórri þökk við ýmis  félög og einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu sem lögðu því lið á einn eða anna hátt við undirbúninginn. Leikmenn ÍBV sýndu ótrúlegt þrek og mikla fórnarlund við þessar aðstæður, sumir þurftu að ferðast langar leiðir til æfinga, t.d. frá Þorlákshöfn og Keflavík.

   ÍBV náði hreint ótrúlega góðum árangri árið 1973 og vil ég segja að leikmenn og forsvarsmenn liðsins hafi þarna unnið eftirminnilegt afrek. Liðið lék sína heimaleiki á grasvellinum í Njarðvík og sá völlur varð nokkursskonar "Mekka" Eyjafólks þetta sumar. Fólk fjölmennti á leiki ÍBV, kom margt langar vegalengdir og liðið varð einskonar sameiningartákn Eyjabúa. Mætt var á völlinn, liðið hvatt til dáða og þarna hittist fólk, spjallaði og spekuleraði. Liðið lék 14 leiki, vann 8 gerði eitt jafntefli og tapaði fimm leikjum. Skoraði 27 mörk en fékk á sig 19 mörk. Aðeins einn leikur tapaðist á Njarðvíkurvellinum, fyrir "nágrönnunum" í Keflavík.

   1974 var leikið heima á ný og árangurinn alveg þokkalega góður. Liðið var mikið jafnteflislið þetta ár, gerði sjö jafntefli í 14 leikjum, vann þrjá en tapaði fjórum. Markatalan var jöfn 20-20 og liðið hafnaði í fjórða sæti. En árið eftir kom heldur betur bakslag í seglin og ÍBV varð að bíta í það súra epli að falla niður í 2. deild eftir átta ára dvöl í 1. deild. Vegna fjölgunar í deildinni fékk ÍBV tækifæri til þess að bjarga andlitunu í aukaleik við Þróttara. Leikið var á Melavellinum seint um haustið og tapaði ÍBV leiknum 0-2 Ekki var þó vera liðsins í 2. deildinni langvinn því liðið vann sig strax upp aftur á fyrsta ári og hafði mikla yfirburði í deildinni. Vann 13 leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði aðeins einum leik. Næstu tvö árin í 1. deildinni stóð liðið sig með ágætum lenti 1977 í þriðja sæti og því fjórða ári síðar og þá var komið að árinu 1979.

 

Íslandsmeistari.

 

Knattspyrnuvertíðin 1979 er Eyjafólki minnisstæð og skal engan undra því þetta ár kom loks að því að knattspyrnumenn Eyjanna hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum. Eftir margra ára baráttu, svita og tár, gleði og vonbrygði, náðist lokst handfast tak á bikarnum og hann færður til varðveislu út í Eyjar. Keppnin í 1. deild þetta ár var einstaklega jöfn, spennandi og skemmtileg. Fimm félög, ÍBV, Valur, Akranes, Keflavík og KR, börðust hatrammlega um sigurinn og stóð baráttan allt fram á síðustu mínúturnar í síðustu leikjunum. ÍBV liðið var góð blanda af öflugum sóknarmönnun, liprum miðjumönnum og sterkum varnarjöxlum og markvarslan var í góðu lagi. Þegar kom fram í síðustu umferðina var allt galopið í deildinni og ómögulegt að spá fyrir um hvar sigurinn lenti en bestu möguleikana höfðu ÍBV og Valur. ÍBV lék síðasta leikinn á laugardegi við Þrótt í Laugardalnum og vann öruggan sigur 2-0. ÍBV vann 10 leiki, gerði fjögur jafntefli og tapaði fjórum leikjum. Skoraði 26 mörk en fékk á sig 13 mörk og hlaut því 24 stig. Þegar leikmenn og forustumenn liðsins fögnuðu sigrinum í búningsklefanum eftir leik var orðið ljóst að aðeins Valur gat komist upp fyrir ÍBV. Valur átti að leika við KA norður á Akureyri daginn eftir og með sigri yrðu Valsmenn Íslandsmeistarar. KSÍ óskaði eftir því að ÍBV liðið biði með heimferð þangað til úrslitin lægju ljós fyrir á Akureyri. Var orðið við því nema hvað tveir knattspyrnuráðsmenn, Snorri Jónsson og sá sem þetta ritar, héldu heim til Eyja og áttu þeir að undirbúa móttökur liðsins ef allt færi á besta veg fyrir norðan heiðar.

   Þessi umtalaði sunnudagur var einn allsherjar taugastrekkjari fyrir Eyjabúa og þá ekki síst leikmenn og forustmenn ÍBV. Fólk sat með eyrun límd við útvarpstækin meðan leik KA og Vals var lýst. KA, sem var þegar fallið í 2. deild, barðist hetjulega en taugaveiklun og stress einkenndi leik Vals. Svo fór að leiknum lauk með jafntefli 1-1. Eyjamenn féllust í faðma, tár féllu í geðshræringunni sem því fylgdi að upplifa að vinna Íslandsbikarinn. ÍBV liðið fékk bikarinn afhentan á Laugardalsvellinum við vægast sagt sérstæðar aðstæður og var liðinu vel fagnað. Síðan var haldið til Þorlákshafnar og stigið um  borð í Herjólf sem sigldi með liðið heim til Eyja. Knattspyrnuráðsmennirnir sem heim voru komnir stóðu í ströngu og lentu í ýmsum erfiðleikum með að undirbúa heimkomu liðsins, einkum vegna þess að símakerfið hreinlega sprakk þennan dag. Fengin var rúta og allar eiginkonur liðsmanna, þjálfara og knattspyrnuráðsmanna sóttar heim.  Pálmi Lór og hans lið hóf að undirbúa veisluborð. Haft var samband við Lúðrasveitinu og rætt við ráðamenn bæjarins. Meira að segja "ríkisstjórinn" var ræstur út og hann fenginn til að afgreiða kampavín í tilefni dagsins. Gífurlegur mannfjöldi hafði safnast saman á Básaskersbryggunni þegar Herjólfur lagðist að bryggju og leikmönnum fagnað gífurlega þegar þeir liftu bikarnum og veifuðu til mannfjöldans. Eftir ræðuhöld og húrrahróp hélt svo liðið ásamt mökum til veislu Pálma Lór.

   Næstu ár í 1. deildinni voru brokkgeng en þó náði liðið góðum árangri 1982, lenti í öðru sæti. Sigurlás Þorleifsson varð markakóngur Íslandsmótsins 1981 með 12 mörk  ársamt Lárusi Guðmundssyni, Víkingi og einnig 1982 með 10 mörk ásamt Heimi Karlssyni , Víkingi. 1983 varð að sorgarári hjá ÍBV en þá varð liðið fyrir því áfalli að teflt var fram leikmanni sem hafði verið dæmdur í  leikbann. Í framhaldi af þeim leiðindum sem af þessum mistökum sköpuðust voru tveir leikir dæmdir tapaðir fyrir ÍBV, fjögur stig dregin af og liðið féll í 2. deild. Þetta var gífurlegt áfall fyrir ÍBV og mikill álitshnekkir. Næstu tvö árin lék liðið í 2. deild en vann sig upp 1985. Ekki stóð þó sú sæla lengi því liðið féll strax aftur 1986 og dvaldist enn tvö ár í 2. deildinni. 1989 lenti ÍBV í öðru sæti og endurheimti sæti sitt í 1. deildinni og þar hefur liðið haldið sig fram til þessa þó svo oft hafi munað mjóu og tvisar verið talað um kraftaverk í því sambandi.

 

Árangurinn.

 

Hér fer á eftir samantekt yfir árangur ÍBV í 1. deild. Fyrst eru taldir leikir liðsins frá árinu 1912 til 1943 og síðan frá því deildaskipting var upp tekin og ÍBV öðlaðist fyrst keppnisrétt í núverandi 1. deild.

 

Ár       L.        U.        J.         T.        Mörk:             Stig:    Röð:

1912    2         0          0          2          0-3                   0        3

1926    4         0          1          3          9-17               1         4

1929    4         2          0          2          7-9                 4         3

1930    4         2          0          2          11-10               4         3

1934    4         1          0          3          5-15                2         4

1942    4         1          0          3          4-9                  2         4

1943    4         0          1          3          5-15                1         5

1968    10        4          1          5          16-21               9         5

1969    12        3          6          3          20-20             12        4

1970    14        6          1          7          20-25              13        7

1971    14        9          2          3          37-19             20        2

1972    14        7          4          3          37-22             18        2

1973    14        8          1          5          27-19             17        3

1974    14        3          7          4          20-20             13        4

1975    14        2          5          7          11-22              9          8

1977    18        9          3          6          27-18             21        3

1978    18        8          3          7          29-24             19        4

1979    18        10        4          4          26-13             24        1

1980    18        5          7          6          26-28             17        6

1981    18        8          3          7          29-21             19        6

1982    18        9          4          5          23-16             22        2

1983    18        5          7          6          27-25             13        10

1986    18        3          3          12        20-43             12        10

1990    18        11        4          3          39-32             37        3

1991    18        7          3          8          28-36             24        7

1992    18        5          1          12        23-44             16        8

1993    18        5          4          9          31-41             19        8

1994    18        4          7          7          22-29             19        8

            367      137      82        148      579-617          387

 

   ÍBV lék í 2. deild 1955 til 1960, 1963-1967, 1984-1985 og 1987-1989. Leikir liðsins í 2. deild eru samtals 162, 86 sigurleikir, 25 jafnteflisleikir og 51 tapleikur. Markatalan er 389-281 og unnin stig 242.

   Leikjahæstu leikmenn ÍBV í 1. deild eru: Þórður Hallgrímsson 189, Tómas Pálsson 177, Óskar Valtýsson 161, Snorri Rútsson 139, Örn Óskarsson 135.

   Flest mörk fyrir ÍBV í 1. deild hafa skorað: Sigurlás Þorleifsson 60, Tómas Pálsson 55, Örn Óskarsson 50, Haraldur Júlíusson 36, Ómar Jóhannsson 34.

   Frá 1968 hafa þessir menn þjálfað lið ÍBV: Hreiðar Ársælsson 1968-1969, Þórólfur Beck 1970, Viktor Helgason 1970-1972, Duncan Mcdowell 1973-1974, Gísli Magnússon 1975, George Skinner 1977-1978, Viktor Helgason 1979-1980, Kjartan Másson 1981, Steve Fleet 1982-1983, Einar Friðþjófsson 1984, Kjartan Másson 1984-1985, Gregor Bielatovic 1986, Ársæll Sveinsson og Tómas Pálsson 1987, Rolf Rockemaier/Tómas Pálsson 1988, Sigurlás Þorleifsson 1989-1992, Ómar Jóhannsson 1992, Jóhannes Atlason 1993, Snorri Rútsson 1994 og núverandi þjálfari ÍBV er Atli Eðvaldsson.

 

Bikarmeistari.

 

   Bikarkeppni KSÍ var sett á stofn 1960. ÍBV hefur oft átt góða tíð í bikarkeppninni enda ávallt þótt stemmningslið með baráttuandan í góðum gír. Strax á fyrsta ári sínu í 1. deildinni 1968 setti ÍBV mark sitt á bikarkeppnina með því að vinna keppnina. Lék þá til úrslita á gamla Melavellinum við KRb. KRingar voru þarna í einhverjum feluleik því þetta b lið þeirra var skipað mörgum af leikjahæstu mönnum þeirra þetta sumarið. Leikurinn var skemmtilegur og spennandi og lauk með sigri ÍBV 2-1. Sigmar Pálmason skoraði úr vítaspyrnu og Valur Andersen skoraði sigurmarkið með skalla. ÍBV komst aftur í úrslit 1970 en tapaði þá fyrir Fram 1-2. Aftur var ÍBV í úrslitum 1972 og enn var leikið á Melavellinum við slæmar aðstæður, hvasst og gekk á með snóéljum. ÍBV sigraði 2-0 og kom heim með bikarinn siglandi með varðskipi. ÍBV og Fram hafa marga hildi háð í bikarkeppninni og þau léku til úrslita tvö ár í röð. 1980 vann Fram 2-1 en 1981 var komið að ÍBV og hrósa sigri, vann 3-2 í æsispennandi leik. 1983 var ÍBV enn í úrslitum en tapaði fyrir ÍA 1-2. Því má bæta við að ÍBV varð bikarmeistari 1. flokks árið 1972, frægt lið sem gekk undir nafninu Grímsævintýrið. Tvívegis hefur ÍBV borið sigur úr bítum í Meistarakeppni KSÍ sem hófst 1969: 1980 og 1984. Þá varð ÍBV Íslandsmeistari í eldri flokki 1991.

 

 

Knattpyrnuvellirnir.

 

   Fyrsti knattspyrnuvöllurinn mun hafa verið sunnan við Hástein þar sem nú er aðalleikvangur Eyjanna, sennilega frá árinu 1912. Þá varla meira en lítt ruddir móar. Völlur þessi var eitthvað endurbættur 1922 en þótti aldrei boðlegur sem keppnisvöllur í knattspyrnu né fyrir aðrar íþróttagreinar. Þessum framkvæmdum stóðu íþróttafélögin fyrir af eigin rammleik og höfðu til þess safnað fjár með ýmsu móti. Komu fram raddir um að rétt væri að fá land undir nýjan íþróttavöll inni í Botni. Á fundi í Knattspyrnufélagi Vestmannaeyja 1933 var skorað á bæjarstjórn að úthluta félaginu þrem hekturum lands í Botninum og á aðalfundi félagsins 1934 var þessi krafa endurnýjuð. Eitthvað hefur bæjarstjórnin verið stöð í þessu máli því 23. mars 1935 rituðu 14 forustumenn íþróttahreyfingarinnar bréf þar sem ítrekuð er krafan um nýjan og nothæfan völl. Í bréfinu segir m.a. svo: "Fái íþróttahreyfingin hér ekki nýjan íþróttavöll, þá er það sýnt að það íþróttalíf sem fyrir er muni standa í stað ef það á þá ekki að sofna út af.". Gaman er að varðveita hér nöfn þessara manna sem svo mjög beittu sér í því að fá nothæfan íþróttavöll. Fyrir Þór: Jón Ólafsson bankamaður, Bergsteinn Jónasson hafnarvörður, Guðlaugur Gíslason bæjarstjóri. Fyrir Tý: Karl Jónsson trésmiður, Aðalsteinn Gunnlaugsson skipstjóri, Vigfús Ólafsson skólastjóri. Fyrir KV: Þórarinn Guðmundsson verkamaður, Einar Sigurðsson kaupmaður, Ásmundur Steinsson vélsmiður. Fyrir ÍRV: Jóhannes Jóhannesson kaupmaður, Karl Guðmundsson alþingismaður, Haraldur Eiríksson kaupmaður, Daníel Loftsson verkamaður og Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi.

   Málið var afgreitt í bæjarstjórn 14. október 1935 og þar samþykkt 7:1 að láta land í Botni af hendi gegn því skilyrði að ef höfnin þyrfti á landinu að halda skyldi völlurinn víkja. Þetta svæði inni í Botni þótti mjög álitlegt, sléttar flatir skammt frá bænum, og þarna þótti skýlt. Þorsteinn Einarsson hefur ritað ítarlega grein og einkar fróðlega um þessa einstæðu vallargerð og má ljóst vera af lestri hennar að íþróttamenn í Eyjum lyftu heljarinnar Grettistaki er þeir reistu þetta, á sínum tíma veglega mannvirki. Einar Sigurðsson, sá mikli athafnamaður og íþróttafrömuður ritaði svo um upphaf framkvæmdanna inni í Botni: "Fyrst boðuðum við íþróttamenn á fund á Stakkagerðistúni til að vinna að gerð íþróttavallar í Botninum. Eftir útifund var haldið fylktu liði inn í Botn og fyrstu rekurnar stungnar. Vinnan var hafin, sjálfboðaliðar vinna síðan dag eftir dag í vallarsvæðinu, færa til og slétta. Sléttunin er ekkert áhlaupaverk. Um 5000 bílhlöss þarf að flytja til. Oft hafa mætt 40-50, mest unglingar á aldrinum 12-18 ára. Hafa þeir gengið að vinnunni sem leik. Þeim hefur verið kennt að standa að vinnu; þeir hafa iðkað íþróttir og leiki í hléum. Lært félagslegan þroska."

   Sérstök vallarnefnd var kosin og áttu sæti í henni Einar Sigurðsson, Þorsteinn Einarsson, Árni Guðmundsson og  Guðlaugur Gíslason. Nefndin fann upp á margvíslegri fjáröflun. Ráðinn var fastur maður til að beita línu og tóku formenn vel í það að fara með KV-strenginn sem svo var kallaður. En línuvertíðin brást og minna aflaðist á strenginn en vænst var. Efnt var til 2ja krónu veltu í vikublaðinu Víði sem byggðist á áskorunum vallarnefndar á ýmsa menn í bænum. Einar Sigurðsson eggjaði sína menn fast til verka og veitti nýbökuð vínarbrauð og gosdrykki að launum. Og þarna á flötinni inn í Botni þar sem nú er minnismerkið um Þór og þar austan við sem pitturinn kallast reis nýr, stór og glæsilegur íþróttavöllur með hlaupabrautum og stökkbrautum og einnig reis þarna tennisvöllur. En er völlurinn var tekinn í notkun brást hann glæstum vonum manna. Hann var fallegur ásýndar en þegar keppt var á honum sáust leikmenn varla fyrir ryki. Norðanátt, sandfok og sjávarflóð hjálpuðust að til þess að eyðileggja völlinn svo hann varð aldrei að þeim velli sem draumar eldhuganna stóðu til.  Þessi völlur var aðeins við lýði í 7 til 8 ár.

   Var nú aftur tekið til við að lagfæra gamla völlinn við Hástein og hefur hann ávallt síðan verið aðalleikvangur bæjarins. Merk tímamót urðu 1960 er völlurinn var sléttaður og stækkaður í 100x66 metra og sáð í hann grasfræi. Hann var síðan tekinn í notkun að nýju árið 1963. Minnisstæð er frá þessum árum búningsaðstaðan í Ásabæ, fyrrum íbúðarhúsi Ása í Bæ. Fyrir fáum árum var síðan völlurinn endurbyggður og er nú hinn glæsilegasti. Ákveðið var árið 1946 að byggja nýja malarvöll í Löngulág skammt ofan við Landakirkju. Var það seinunnið verk vegna klappa sem þurfti að sprengja. En þann 29. júlí 1957 var völlurinn vígður formlega. Jarðvegsskipti fóru fram í vellinum árið 1974. Eftir gosið 1973 kvörtuðu forustmenn ÍBV yfir því að tilfinnanlega vantaði grasflöt til æfinga svo hlífa mætti Hásteinsvellinum vegna vikurs í grassverðinum. Vaknaði þá hugmynd einhvers að riðja niður vikri úr vesturhlíðum Helgafells og búa til knattspyrnuvöll í Helgafellsdal. Þetta var framkvæmt, mold sett ofan á vikurinn sáð í og úr varð ágætis grasvöllur, 100x100 metrar. Þá eru ótaldir grasvellir Týs og Þórs en Þórsvöllurinn var einmitt heimavöllur ÍBV meðan endurbæturnar hinar síðustu fóru fram á Hásteinsvellinum. Ótaldir eru síðan fjölmargir minni sparkvellir sem voru vítt og breytt um Eyjuna sem fóstruðu margan knattspyrnukappan meðan tekin voru fyrstu skrefin með boltann. Frægasti sparkvöllurinn af þessari tegund var í Lautinni við Vesturveg og þaðan komu margir bestu knattspyrnumenn Eyjanna og nefni ég þar aðeins tvö nöfn: Guðmund Þórarinsson (Týssa frá Háeyri) og síðar Ásgeir Sigurvinsson.

 

Dómarar.

 

   Eitt er víst í knattspyrnunni. Enginn leikur fer fram ef ekki er til staðar dómari. Það hefur verið gæfa okkar að ávallt hafa fengist menn til þess að taka að sér þetta erfiða og vægast sagt vanþakkláta starf. Menn sem hafa fórnað miklum tíma í íþróttina og lítið annað hlotið að launum en ánægjuna af því að taka þátt í leiknum. Árið 1959 komu hingað þekktir dómarar úr Reykjavík, Grétar Norðfjörð og Baldur Þórðarson og gengust fyrir stofnun dómarafélags, Knattspyrnudómarafélags Vestmannaeyja (KDV), sem var fjórða í röðinni dómarafélaga á landinu. Á fundinn mættu flestir þeir sem dæmt höfðu leiki hér í Eyjum. Formaður KDV var kosinn Ólafur Erlendsson frá Landamótum og með honum í stjórn voru Óskar Axel Lárusson, Rútur Snorrason og Gunnar Stefánsson.

   Þetta ágæta félag lognaðist síðan útaf en 7. janúar 1962 var félagið endurreist en nafni þess þó breytt í Dómarafélag Vestmannaeyja. Sigursteinn Marinósson var kosinn formaður og með honum í stjórn voru þeir Þorsteinn Eyjólfsson, Marteinn Guðjónsson, Borgþór Pálsson, Björn Guðmundsson og Sigurður Jóhannsson. Mörg hin síðari ár lá starf dómarafélagsins þyngst á herðum þeirra Lárusar heitins Jakobssonar og Jóhanns Jónssonar.

 

Lokaorð.

 

   Ég hefi í þessari samantekt farið á nokkurskonar hundavaði yfir knattspyrnusögu Eyjanna. Tíminn sem ég hafði til stefnu var naumur og heimildasöfnun var erfið því það hefur lengi verið ljóður á ráði íþróttahreyfingarinnar hér að illa hefur verið haldið utan um heimildir og gögn. Ég bið fólk að taka viljan fyrir verkið. Hér er langt því frá um tæmandi úttekt að ræða. Fólk tekur eflaust eftir að ekkert er hér fjallað um þátttöku ÍBV í Evrópukeppnunum í knattspyrnu en sú saga mun vera rekin af öðrum hér í blaðinu. Þá má hér annarsstaðar lesa skrá yfir knattspyrnumenn Eyjanna sem hafa leikið í landsliðum. Margir hafa lagt fram mikla vinnu og sýnt mikla fórnfýsi við störf sín fyrir knattspyrnuna hér í Eyjum og hefði verið gaman að geta hér talið til fleiri nöfn þeirra manna sem þar hafa komið við sögu. Auk leikmanna og þjálfara hafa fjölmargir starfað um lengri eða skemmri tíma í knattspyrnuráðum ÍBV og má þar nefna Kristin Sigurðsson, Húnboga Þorkelsson, Valtý Snæbjörnsson, Adólf Óskarsson, farsælasta unglingaleiðtoga okkar fyrr og síðar og Jóhann Ólafsson sem ég higg að hafi allra manna lengst og best starfað í knattspyrnuráði ÍBV og hefur Jóhann til fjölmargra ára verið fulltrúi Suðurlands í aðalstjórn KSÍ. Að endingu vil ég óska ÍBV til hamingju á merkum tímamótum og set fram þá ósk að áfram megi nafn ÍBV trjóna meðal þeirra bestu í knattpyrnunni á Íslandi.

-hkj.