Frábær þrettándahátíð að baki

12.jan.2010  14:57
Þá er þrettándahátíðinni lokið og tókst hún með miklum ágætum. ÍBV íþróttafélag þakkar öllum þeim sem komu að hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Talið er að hátt í 200 manns hafi komið að þrettándagleðinni með vinnuframlagi.
Í bókun bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar um þrettándann má lesa eftirfarandi:
 
"Bæjarráð fjallaði um ný afstaðna og vellukkaða þrettándagleði. Ekki fer á milli mála að sú ákvörðun að flytja þrettándagleðina að helgi fellur í góðan jarðveg hjá Eyjamönnum og gestum þeirra. Áætlað hefur verið að rúmlega 4000 manns hafi tekið þátt í þrettándagöngunni, rúmlega 2000 manns mættu á fjölskyldugleði í íþróttahúsinu, 500 manns í náttúrugripasafnið og áfram má telja.
Bæjarráð færir ÍBV íþróttafélagi og sjálfboðaliðum þakkir fyrir þeirra mikla framlag til þrettándagleðinnar. Án þeirra væri hátíðin ekki möguleg. Þá samþykkir bæjarráð að fela bæjarstjóra að sjá til þess að áfram verði unnið í góðu samstarfi við ÍBV að þróun þrettándagleðinnar."
 
ÍBV íþróttafélag vill koma á framfæri þökkum til bæjarins fyrir samstarfið í kringum þrettándann. Einnig fá starfsmenn þjónustumiðstöðvar Vestmannaeyjabæjar þakkir fyrir alla hjálpina.