Handbolti - ÍBV í basli með Fjölni

30.jan.2011  10:35
Eyjamenn sýndi líklega flestar sínar verstu hliðar í leik sínum gegn botnliði Fjölnis í dag þegar liðin áttust við í Eyjum í 1. deildinni.  Leikmenn ÍBV virtust á löngum köflum í leiknum vera hálf áhugalausir, alla baráttu vantaði í liðið og leikur þess var eftir því.  Fjölnismenn, sem mættu eingöngu með níu leikmenn til Eyja, þar af tvö markverði, börðust hins vegar eins og ljón allan tímann og hefðu átt skilið að uppskera í það minnst eitt stig, ef ekki tvö og þar með sín fyrstu stig í vetur.  Lokatölur urðu hins vegar  32:29 fyrir ÍBV sem mega þakka lukkudísunum fyrir stigin tvö.
 

Eyjamenn byrjuðu ágætlega í leiknum, komust í 3:1 og ágætis stemmning í húsinu.  ÍBV komst m.a. fjórum mörkum yfir 11:7 en Fjölnismenn voru aldrei langt undan og fremstur í flokki fór Eyjamaðurinn Óttar Steingrímsson, sem skoraði sjö mörk fyrir Fjölni í dag.  Varnarleikur ÍBV hefur oftar en ekki verið betri en hann var í dag og markvarslan var í takti við það.  Fjölnismenn efldust hins vegar með hverju markinu, fögnuðu vel og innilega og augljóst hvoru megin baráttuandinn var og hvoru megin hann var ekki.  Í hálfleik munaði aðeins einu marki, 16:15.
 
Í síðari hálfleik áttu flestir von á því að draga myndi af Fjölnismönnum enda fámennur hópur hjá þeim í dag.  En það fór þó ekki þannig, gestirnir úr Grafarvoginum, sem hafa ekki unnið eitt einasta stig í allan vetur, komust tveimur mörkum yfir fljótlega í síðari hálfleik og útlitið allt annað en gott.  En þá kom smá neisti í Eyjamenn, Sigurður Bragason, sem var að spila sinn fyrsta leik í vetur eftir erfið meiðsli, skoraði mikilvæg mörk og það gerði Theodór Sigurbjörnsson líka.  Eyjamenn náðu þriggja marka forystu þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka en Fjölnismenn gáfust ekki upp og reyndu hvað þeir gátu til að jafna.  Þeim tókst það hins vegar ekki og lokatölur eins og áður sagði 32:29.
 
Eyjamenn ætla sér að berjast um sæti í úrvalsdeild í vor en með svona leik munu þeir ekki eiga eitt einasta erindi í deild hinna bestu.  En þeir vita manna best að þeir geta mun betur en þeir sýndu í dag, miklu mun betur og nú er það þeirra að sýna það í næsta leik.
 
Mörk ÍBV:
Vignir Stefánsson 10, Leifur Jóhannesson 5, Gísli Jón Þórisson 5, Davíð Óskarsson 4, Theodór Sigurbjörnsson 3, Sigurður Bragason 2, Einar Gauti Ólafsson 1, Grétar Eyþórsson 1, Björn Kristmannsson 1.
Varin skot: Kolbeinn Arnarson 12, Haukur Jónsson 3.