Handbolti - Tap í Víkinni.

29.nóv.2011  08:30

Víkingur og ÍBV áttust við í 1. deildinni á laugardaginn var og verður seint sagt að um frægðarför hjá okkar mönnum hafi verið að ræða.  Víkingar hófu leikinn af miklum krafti, staðráðnir í að hefna fyrir töp í fyrstu tveimur leikjum liðanna á leiktíðinni, og náðu strax forystunni. Leikmenn ÍBV héldu í við Víkinga til að byrja með en eftir um 10 mínútna leik náðu Víkingar upp forskoti sem ÍBV náði aldrei að brúa. Á þessum tíma var vörn Víkinga afar þétt og sóknarleikur þeirra árangursríkur. Sóknarleikur ÍBV var hins vegar stirður og höfðu menn fá svör við varnarleik Víkinga.  Þá var vörnin langt frá því að vera upp á sitt besta og markvarslan var lítil sem engin. Hálfleikstölur 13-8.

Í seinni hálfleik var sama upp á teningnum. Ekkert gekk í sóknarleiknum sem fyrr og skoruðu leikmenn ÍBV einungis tvö mörk fyrstu 15 mínútur hálfleiksins. Á sama tíma skoruðu Víkingar 7 mörk, og munurinn kominn í 10 mörk, staðan 20-10 þegar 15 mínútur lifðu leiks. Það sem eftir lifði leiks náðu leikmenn ÍBV aðeins að klóra í bakkann og minnka muninn, lokatölur 25-18.

Þessu úrslit gerðu það að verkum að ÍBV missti efsta sæti deildarinnar í hendur ÍR á markatölu en bæði lið eru með 12 stig eftir 8 umferðir. Stjarnan er í þriðja sæti með 11 stig og Víkingar styrktu stöðu sína í fjórða sætinu með sigrinum og eru með 10 stig.

Það var fátt sem gladdi í leik ÍBV á laugardag, það gekk hreinlega ekkert upp í leik liðsins. Getan er hins vegar til staðar til að gera miklu mun betur. Menn verða að líta í eigin barm og mæta í tvíefldir til leiks um næstu helgi þegar Stjarnan kemur í heimsókn í gamla salinn.  Sigur í þeim leik er nauðsynlegur,  sérstaklega í ljósi þess hve baráttan er orðin jöfn og hörð á toppnum.

Mörk ÍBV: Siggi Braga 4, Leifur 3, Vignir 2, Sindri Ólafs 2, Magnús 2, Gísli Jón 2, Andri Heimir 1, Davíð Þór 1 og Grétar Þór 1.

Þá varði Kolli 2 skot en Haukur (sem kom inn í lok fyrri) varði 12.

 

Þetta er Pálmi Harðarson sem skrifar frá Reykjavík