Handbolti - ÍBV sigraði Selfoss

06.okt.2011  20:54
Fyrsti útileikur ÍBV í mfl. karla í handbolta fór fram í kvöld. Leiknum lauk með sigri okkar manna 24-37...
Strákarnir fóru með Björgunarbátnum Þór þar sem Herjólfur siglir ekki í Landeyjahöfn. Það var dálítið pus sem greinilega gerði mönnum gott því að baráttan og sigurviljinn voru til staðar. Arnar Pétursson var kampakátur á heimleið og var ánægður með strákana. "Þetta var sigur liðsheildarinnar": sagði hann. Allir leikmenn ÍBV léku með og skiptist spiltíminn nokkuð jafnt á milli manna.
 
Andri Heimir er greinilega hungraður í að spila, en hann missti af síðasta vetri þegar hann sleit krossband. Hann spilaði mjög vel í kvöld og gerði 10 mörk. Vignir Stefánsson skoraði 8 þar af nokkur úr hraðaupphlaupum, en þau vantaði í leiknum gegn ÍR. Kolbeinn sem var maður leiksins gegn ÍR var líka góður í kvöld. Haukur kom inn á í seinni hálfleik og átti frábæran leik.
 
ÍBV er með mjög breiðan hóp og ef allir spila svona í vetur þá liggur leiðin beint upp í efstu deild.