Handbolti - Sigur gegn FH-U í gær

19.mar.2011  11:00

Eftir að hafa verið undir í leikhléi

Í gærkvöldi lék karlalið ÍBV gegn ungmennaliði FH í Eyjum.  Eyjamenn mega illa við því að tapa stigum í baráttunni við Víking um 4. sæti 1. deildarinnar sem gefur sæti í umspili um eitt laust sæti í úrvalsdeild næsta vetur.  Strákunum urðu ekki á nein mistök, léku við hvern sinn fingur í síðari hálfleik og unnu að lokum með fjórum mörkum 27:23 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 13:15.  Leifur Jóhannesson fór á kostum í sókn ÍBV í síðari hálfleik og skoraði alls sjö mörk í leiknum, þar af sex í síðari hálfleik.
Leikurinn fór ágætlega af stað hjá ÍBV sem komust strax tveimur mörkum yfir og voru yfir framan af. En um miðjan fyrri hálfleikinn tókst gestunum ungu úr Hafnarfirði að jafna metin og komast yfir.  FH-ingar náðu mest tveggja marka forystu og héldu henni út hálfleikinn.
 
Gestirnir juku muninn svo í fjögur mörk í upphafi síðari hálfleiks og útlitið allt annað en gott.  En í kjölfarið komu fjögur Eyjamörk og liðin skiptust á að skora næstu mínúturnar.  Í stöðunni 20:20 skildi svo að, Eyjamenn skoruðu fjögur mörk gegn engu marki FH-inga og lögðu þar með grunninn að sigrinum.
 
Eins og áður sagði fór Leifur Jóhannesson fyrir sínu liði í markaskorun í síðari hálfleik og einnig áttu þeir Sigurður Bragason og Gísli Jón Þórisson ágæta spretti.  Þorgils Orri Jónsson stóð í markinu í fyrri hálfleik og var langbesti leikmaður liðsins í hálfleiknum, varði alls níu skot en hafði hægar um sig í þeim síðari.  Mesti munurinn lá hins vegar í baráttuvilja og gleði leikmanna.  Það hefur skort að leikmenn ÍBV hafi gaman af því að spila í vetur og árangurinn hefur verið eftir því.  Það var gaman að horfa á Eyjaliðið í síðari hálfleik og vonandi hafa strákarnir fundið taktinn eftir frekar taktlausan vetur.
 
Mörk ÍBV: Leifur Jóhannesson 7, Gísli Jón Þórisson 6, Sigurður Bragason 3, Davíð Þór Óskarsson 3, Sindri Ólafsson 1, Einar Gauti Ólafsson 1, Grétar Þór Eyþórsson 1.
Varin skot: Þorgils Orri Jónsson 13, Kolbeinn Arnarson 4.
 
Unnið upp úr frétt Eyjafrétta