Handbolti - ÍBV tekur á móti ungmennaliði Selfoss, stutt spjall við Basta

18.nóv.2010  11:38

ÍBV mun á laugardaginn mæta ungmennaliði Selfoss í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum kl. 15:00. ÍBV er sem stendur í 1.-3. sæti deildarinnar ásamt ÍR og Gróttu með 11 stig. Selfoss U er hinsvegar í 7 sæti með 2 stig.

Þessi leikur er sá fyrsti í annarri umferð, en umferðirnar eru þrjár. Í þeirri fyrstu sigruðu ÍBV Selfoss, á Selfossi, með minnsta mun 25-26.

Selfoss teflir núna, í fyrsta sinn, fram tveim liðum í meistaraflokki. Það er til marks um hversu miklu grettistaki hefur verið lyft hjá þessum nágrönnum okkar. Fyrir 5 árum settu þeir í gang akademíu þar sem íþróttaiðkunin krakkana er tengd inn í framhaldsskólanámið. Við það fá þau m.a einingar í skólanum. Í dag er iðkendafjöldin og áhuginn það mikill að þeir tefla fram 2 liðum í 3. 2. og meistaraflokki. Þetta form hefur skilað af sér fölmörgum unglingalandsliðsmönnum. Þetta er módel sem við erum mjög hrifin af og er stefnan að vinna eftir henni á næsta ári undir stjórn Árna Stefánssonar.

Aðalfrumkvöðull þessa verkefnis er að sjálfsögðu Eyjamaður en það er hinn geðþekki sálfræðingur Sebastian Alexandersson. Við settum okkur í samband við Basta og spurðum hann aðeins útí þetta verkefni.

 

Hver var ástæðan fyrir því að þið settuð að stað akademíuna?

Fyrst og fremst til þess að efla handknattleik á Selfossi og reyna að byggja upp gott M.fl. lið innan frá með heimatilbúnum leikmönnum.

 

 

Hvernig tóku menn í þetta í upphafi, þ.e.a.s. bæjaryfirvöld, skólinn og félagið?

Mjög vel. Fengum strax mikinn stuðning frá félaginu, Árborg og skólanum. Brynjar Karl var auðvitað búinn að ryðja leiðina með körfunni ári á undan okkur og þannig auðvelda okkur að byrja þetta.  

 

 

Er módelið fullhannað, eða er stöðugt verið að bæta við?

Ég efast um að það verði nokkurn tímann fullhannað því það væri ekki vænlegt til árangurs. Við erum í dag að keyra á 5 ára plani sem verður skoðað í vor m.t.t. þeirrar reynslu sem þessi 5 ár hafa skilað. Þá vonandi finnum við ný skref til að taka og bæta þannig starfið.

 

 

Hversu margar íþróttagreinar falla undir akademíuna?

Í dag eru auk okkar reknar akademíur í knattspyrnu, körfubolta og fimleikum sem eru allt valáfangar í skólanum og svo er einnig boðið upp á afreksbraut í hestaíþróttum.

 

 

Hversu margir voru skráðir í akademíuna fyrsta árið og hversu margir eru í henni í dag?

Akademían byrjaði haustið 2006 og þá voru 24 iðkendur sem byrjuðu hjá okkur. Í dag eru 30 iðkendur og þar af 3 stelpur.

Þetta er 3 ára nám sem lýkur með útskrift. Í dag höfum við útskrifað 13 drengi á síðustu 2 árum.

 

Hversu mörgum leikmönnum hefur akademían skilað í ungmennalandslið Íslands?

Núna á okkar 5 ári hafa 15 leikmenn verið boðaðir á æfingar unglingalandsliðanna síðan við byrjuðum og af þeim hafa 10 spilað opinberan landsleik. Í dag eru 5 þeirra orðnir fastamenn í landsliði.   

 

Um leið og við þökkum Basta fyrir gott spjall þá skorum við á alla að mæta í höllina á laugardaginn og hvetja okkar stráka til sigurs í þessum "Derby" leik!