Handbolti - Heppnir að ná í stig!

15.nóv.2010  11:14
ÍBV mætti Víkingum sl. laugardag. Það er skemmst frá því að segja að við höfum verið heppnir með að ná í stig á móti baráttuglöðum Víkingum.
 
Fyrir leikinn var ÍBV í kjörstöðu í deildinni því með sigri gátum við komið okkur einir í efsta sætið. Það er eitthvað sem fáir áttu von á eftir  1 . umferð deildarinnar.
 
 
 
Það var ljóst frá fyrstu mínútu að þetta yrði erfiður leikur. Gestirnir tóku snemma frumkvæðið í og héldu því út allan leikinn. Það var svo 1 sek. sem lifði leiks þegar Vignir náði að jafna.
 
Það er erfitt að draga eitthvað fram sem var mjög gott í þessum leik. Okkar sterkasta vopn, varnarleikurinn, var alls ekki að standa undir væntingum. Skot Víkinga rötuðu auðveldlega í gegn og oftar en ekki í mark heimamanna, við það voru hraðaupphlaupin okkar tekin út. Á meðan varnarmenn Víkinga tóku hraustlega á okkar sóknarmönnum fengu sóknarmenn gestanna ósköp "gestrisna" meðferð hjá okkar varnarmönnum.  
 
Sóknarleikurinn var ágætur á köflum og eiga 29 mörk að duga til sigurs á heimavelli. Jákvæðasti punkturinn var Davíð Þór Óskarsson sem skoraði 9 mörk og er á hraðri leið með að komast í sitt besta form aftur.
 
Endurkoma Þorgils Orra Jónssonar í ÍBV búninginn var einnig góð og varð hann 14 skot á 40 mínútum. Við bjóðum "Gilsa" velkomin aftur heim.
 
Þrátt fyrir þessi úrslit er liðið enn í 1. sæti deildarinnar ásamt Stjörnunni og Gróttu. 2.umferð deildarinnar hefst næsta laugardag þar sem við tökum á móti ungmennaliði Selfoss. Það er alveg á kristaltæru að Eyjamenn verða að ná í 2 stig í þeim leik. En meira um hann síðar.