Handbolti - Stelpurnar mættar til leiks

10.okt.2010  08:24
ÍBV tekur þátt í efstu deild kvenna aftur eftir nokkura ára hlé. Þær léku sinn fyrsta heimaleik í vetur og var hann gegn Gróttu. Stelpurnar komu vel stemmdar til leiks og greinilega í toppformi..
Kvennalið ÍBV vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu á heimavelli í 2. umferð N1-deildar þegar Grótta kom í heimsókn.  Áður höfðu Eyjastúlkur tapað fyrir Fylki á útivelli en sigurinn á Gróttu var nokkuð sannfærandi.  Eftir jafnar upphafsmínútur, þar sem Grótta komst m.a. í 1:3, tóku Eyjastúlkur öll völd á vellinum og breyttu stöðunni í 7:3.  Þær litu svo aldrei um öxl eftir það, skoruðu hvert markið á fætur öðru úr hraðaupphlaupi og unnu að lokum með átta mörkum, 33:25.

Staðan í hálfleik var 21:14 en ÍBV komst mest tíu mörkum yfir.  Grótta átti hins vegar ágætan sprett í upphafi síðari hálfeiks og minnkuðu muninn niður í fimm mörk en þá tóku Eyjastúlkur aftur við sér og náðu öruggri forystu áður en varamennirnir kláruðu leikinn.
 
Heiða Ingólfsdóttir átti góðan dag í markinu, varði alls 19 skot og átti hverja sendinguna á eftir annarri fram völlinn þar sem fyrst og fremst Guðbjörg Guðmannsdóttir var mætt til að koma boltanum í netið.  Guðbjörg átti einnig góðan leik, sem og Þórsteina Sigurbjörnsdóttir.
 
Mörk ÍBV: Guðbjörg Guðmannsdóttir 13, Þórsteina Sigurbjörnsdóttir 10, Renata Horvath 5, Aníta Elíasdóttir 2, Ester Óskarsdóttir 1, Sandra Gísladóttir 1, Kristrún Hlynsdóttir 1.
Varin skot: Heiða Ingólfsdóttir 19.