Handbolti - Stelpurnar komnar í úrslit

29.mar.2010  22:45
Stelpurnar sigruðu HK í kvöld og eru þar með komnar í úrslit 2.deildar.
 
Leikurinn sem boðið var upp á í kvöld reyndi ekki eins mikið á taugarnar og leikur strákanna á laugardaginn. HK telfdi fram ungu og efnilegu liði, sem Erlingur Richardsson hefur verið að byggja upp.
 Leikur ÍBV og HK í 2. deild kvenna fer seint í sögubækurnar fyrir áferðarfallegan handbolta eða mikla spennu.  Eyjastúlkur höfðu nokkra yfirburði en voru samt í miklum vandræðum með sinn leik, sérstaklega í fyrri hálfleik gegn framliggjandi vörn HK.  Sigurinn var þó aldrei í hættu og lokatölur urðu 28:17 en staðan í hálfleik var 10:6.  Leikurinn var samt sem áður nokkuð áhugaverður enda voru m.a. hjón sitthvoru megin við borðið og tveir leikmenn sneru aftur í lið ÍBV eftir samtals 25 ára fjarveru.

Þannig klæddist Hind Hannesdóttir á ný búningi ÍBV en það hefur hún ekki gert í tíu ár, nánast upp á dag því 5. apríl árið 2000 fagnaði ÍBV Íslandsmeistaratitli í fyrsta sinn í kvennahandbolta innanhúss og var það jafnframt síðasti leikur Hindar þar til nú.
 
Það er þó enn lengra síðan Þórunn Jörgensdóttir spilaði með ÍBV eða 15 ár en Þórunn var lengi vel aðalmarkvörður ÍBV liðsins.  Hún sneri aftur í markið síðustu mínúturnar og skoraði eftir leikinn á bróður sinn, Sigmar Þröst Óskarsson að gera hið sama.  Sigmar hefur hvergi slegið af í æfingum og færi sjálfsagt létt með að fara í markið.
 
Og til að auka enn á dramatíkina þá var Dröfn Haraldsdóttir í marki HK en Dröfn er Eyjastelpa í húð og hár og er móðir hennar, Hugrún Magnúsdóttir er í handboltaráði ÍBV.
 
Hjón áttust við
Og til að toppa þetta allt saman þá áttust við í dag hjón því Erlingur Richardsson er þjálfari HK.  Eiginkona hans, Vigdís Sigurðardóttir hefur hins vegar leikið með ÍBV í vetur, eins og hún gerði svo lengi hér á árum áður.  Börn þeirra hjóna voru að sjálfsögðu í salnum og skyldi engan undra þótt þau hefðu verið dálítið ringluð hvort liðið ætti að hvetja.
 
Komar í úrslit
En með sigrinum er ÍBV komið í fjögurra liða úrslit 2. deildar sem fara fram 8. og 9. apríl.  Þar spila Grótta, Víkingur, ÍBV og FH en Eyjastúlkur mæta Víkingi í undanúrslitum.  Úrslitakeppnin fer fram á Seltjarnanesi og verður einn leikur í undanúrslitum og svo úrslitaleikir daginn eftir.  Ekki þarf að vinna 2. deildina til að komast upp í úrvalsdeild, deildirnar eru alveg aðskildar þannig að ekkert lið fellur og ekkert lið fer upp. 
Mörk ÍBV: Guðbjörg Guðmannsdóttir 10, Hekla Hannesdóttir 5, Anna María Halldórsdóttir 5, Kristrún Hlynsdóttir 3, Aníta Elíasdóttir 2, Lovísa Jóhannsdóttir 2, Hind Hannesdóttir 1.