Handbolti - Sigur gegn ÍR

15.mar.2010  21:17
Sterk vörn, markvarsla og baráttuandi skóp öruggan sigur gegn ÍR á útivelli.
 
Sigurður Bragason lék þá sinn 300.deildarleik fyrir ÍBV. Handknattleiksráð færði honum blóm við heimkomuna.
Eyjapeyjar mættu rétt stemmdir í leikinn og vissu hvað var í húfi. Með sigri eru þeir nánast öruggir í Úrslitakeppnina og ógna liðunum tveimur fyrir ofan. Strákarnir fóru með Herjólfi á föstudeginum og æfðu í íþróttahúsinu að Strandgötu í Hafnarfirði í boði Gunnars Bergs.
 
ÍR-ingar hafa verið á góðri siglingu eftir að Viggó tók við liðinu, en þeir áttu ekki svar við góðum varnarleik ÍBV. Baráttan var mikil og ef hún verður svona í þeim fjórum leikjum sem eftir eru í deildinni þá endar ÍBV í efsta sæti.
 
ÍBV var yfir 14-17 í hálfleik og juku síðan munin jafnt og þétt í seinni hálfleik. Voru komnir 10 mörkum yfir þegar 10 mínútur voru eftir, þá lét Svavar yngri strákana spila út leikinn og stóðu þeir sig vel. Leikurinn endaði með átta marka sigri, 27-35.
 
Næsti leikur er gegn Þrótti n.k. laugardag í Reykjavík.