Handbolti - Selfoss-ÍBV í beinni útsendingu

19.jan.2010  18:21
Næstkomandi föstudag verður sannkallaður stórleikur í 1. deildinni í handboltanum hér á fróni þegar suðurlandsliðin Selfoss og ÍBV eigast við.  Leikir liðanna hafa alltaf verið miklir baráttuleikir þótt hlutskipti liðanna hafi oft á tíðum verið misjafnt.  En nú berjast bæði lið í toppbaráttu 1. deildar og ekkert nema sigur sem kemur til greina.  Leikurinn fer fram á Selfossi en fyrir tilstuðlan Böddabita og Lögmannstofunnar, geta Eyjamenn horft á leikinn á SportTV.
 

SportTV hefur undanfarin misseri sýnt frá hinum ýmsu íþróttaviðburðum í beinni útsendingu á vefsíðu sinni, www.sporttv.is.  Þetta verður í fyrsta sinn sem leikur úr 1. deildinni verður sýndur og væntanlega fá áhorfendur talsvert fyrir sinn snúð enda toppslagur og suðurlandsbaráttan í algleymingi.  Leikurinn hefst klukkan 19:30 en útsending SportTV hefst tíu mínútum fyrr.
 
Liðin áttust við fyrr í vetur í Eyjum og leikurinn var hin mesta skemmtun þar sem dramatík, mistök og glæsileg tilþrif voru áberandi.  Leiknum lyktaði með sigri Selfyssinga, 23:25 en úrslitin réðust í raun og veru á síðustu andartökum leiksins.