Handbolti - Sigurgangan heldur áfram

16.jan.2010  17:40
Það var greinilegt að jólamaturinn fór verr í leikmenn ÍBV en Þróttar. ÍBV hafði verið að leika mjög vel fyrir jól, en strákarnir voru ekki að leika í dag eins vel og þá. Það var þó gott að ná að sigra og það með níu marka mun. Næsti leikur ÍBV er gegn Selfossi á útivelli n.k.föstudag. Með sigri getum við orðið jafnir Selfossi í efsta sæti.
 
Eitt gladdi áhorfendur. Það var að sjá Steinar Jóshúa aftur  á klukkunni eftir fimmtán ára hlé.
Eyjamenn lentu í talsverðu basli með neðsta lið 1. deildar í handbolta þegar liðin áttust við í Eyjum í dag.  ÍBV er í þriðja sæti á meðan Þróttarar hafa ekki fengið stig í vetur en engu að síður var leikurinn jafn og spennandi lengst af.  Þróttarar sýndu lipra takta og voru óheppnir að vera tveimur mörkum undir í hálfleik 16:14.  En undir lok leiksins kom í ljós styrkleikamunur liðanna og Eyjamenn unnu sannfærandi 35:26.

Þar með eiga Eyjamenn möguleika á að jafna Selfoss að stigum þegar liðin eigast við á Selfossi í næstu viku en staða þriggja efstu liða er nú þannig að Selfoss er efst með 14 stig, Afturelding er í öðru sæti með 13 og ÍBV í því þriðja með 12 en Eyjamenn hafa leikið einum leik meira en hin tvö liðin.
 
En eins og áður sagði voru Eyjamenn í miklu basli með fríska Þróttara en þetta var fyrsti leikur Eyjamanna síðan 19. desember.  Það kom líka í ljós að leikmenn liðsins voru nokkuð ryðgaðir auk þess sem tveir af máttarstólpum liðsins, þeir Arnar Pétursson og Sigurður Bragason hafa verið meira og minna meiddir síðasta mánuðinn og lítið æft.  Eyjamenn náðu nokkrum sinnum þriggja til fjögurra marka forystu en í fyrri hálfleik náðu Þróttarar að jafna í 14:14.  En ÍBV skoraði síðustu tvö mörk fyrri hálfleiksins.
 
Síðari hálfleikur var svo á svipuðum nótum.  Eyjamenn voru lengst af um þremur mörkum yfir en gekk afar illa að hrista Þróttara af sér.  En undir lokin, í stöðunni 28:25 hrökk Eyjaliðið loks í gang og skoraði sjö mörk í röð án þess að gestirnir næðu að svara.  Haukur Jónsson, ungur markvörður ÍBV kom inn á og varði eins og berserkur en Kolbeinn Arnarson hafði ekki náð sér almennilega á strik í leiknum og í raun var þetta í fyrsta sinn í vetur sem hann á ekki stórleik.
 
En eins og áður sagði eiga Eyjamenn nú möguleika á að komast upp að hlið Selfyssinga ef Eyjamenn ná að vinna þá á útivelli.  Það verður væntanlega mjög erfiður leikur en ef ÍBV ætlar sér að eiga möguleika á efsta sætinu, þá er möguleikinn í þessum leik.
 
Mörk ÍBV:
Vignir
10
Leifur
7
Ingólfur
5
Sigurður
5
Bragi
3
Grétar
2
Sindri Ó
2
Sindri H
1