Handbolti - ÍBV strákarnir léku á alls oddi

18.okt.2009  17:51
ÍBV strákarnir sigruðu ÍR með 7 marka mun 32-25 hér í Eyjum í dag. Leikurinn fór fram í nýja salnum, en ÍBV lék sína leiki í gamla salnum í fyrra. Það var eins gott því mikill fjöldi áhorfenda mætti og var stemmningin eins og hún var í gamla daga.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar, en eftir um 10 mín. leik kom góður kafli ÍBV og náðu þeir fimm marka mun. Þeirri forystu missti ÍBV ekki allveg niður. Það var ljóst að eyjapeyjarnir, en allir leikmenn ÍBV eru heimamenn, ætluðu að selja sig dýrt. Nokkrir þeirra voru að leika sinn besta leik og eru greinilega komnir í gott form. Kolbeinn var góður og lokaði markinu á köflum. Bragi Magg skoraði 7 mörk úr 7 tilraunum og lék mjög vel. Hann hefur sýnt miklar framfarir, sérstaklega hvað hann grípur boltann orðið betur. Eftir að hann hefur náð boltanum gefur það annað hvort mark eða víti. Sama má segja um Grétar Eyþórs sem gerði gullfalleg mörk úr hraðaupphlaupum. Oft var eins og hann ætti ekki möguleika á að ná sendingunum en með mikilli snerpu og tækni skilaði það oftast marki. Grétar skoraði 6 mörk í leiknum eins og Arnar Péturs sem var traustur bæði í vörn og sókn. Þá lék Leifur mjög vel skoraði 4 mörk og þegar hann tók á móti besta leikmanni ÍR-inga Brynjari Stefánssyni í vörninni og gerði hann það vel. Siggi Braga gerði 4 mörk og átti góðar sendingar inn á línu. Sindri Ólafs gerði einnig 4 falleg mörk úr hægra horninu og var mjög öruggur.
 
Vörnin var mjög góð og Kolbeinn varði það sem komst í gegn. Munar mikið um að Sindri Haralds er kominn aftur og er hann að komast í gott form. Hann og Davíð voru eins og Mið- og Heimaklettur gjörsamlega lokuðu vörninni. Þeir spiluðu líka sókn og þannig gat Svavar hvílt menn sem ekki eru í sínu besta formi. Davíð gerði 1 mark.
 
Nú þarf Svavar að halda áfram á þessari braut með liðið og þá á það eftir að gera góða hluti í vetur.