Handbolti - Ásgeir bestur.

15.okt.2008  10:05
Ásgeir Sigurvinsson er besti knattspyrnumaður Íslands fyrr og síðar.

Þetta val kemur engum á óvart, sem fylgst hafa með íslenskri knattspyrnu. Ásgeir er einn af bestu sonum Vestmannaeyja, hann hefir borið hróður Eyjanna um alla Evrópu. Ásgeir vakti snemma athygli fyrir afburðahæfni og elju við knattspyrnuiðkun. Segja má að boltinn hafi verið hann besti vinur í æsku, enda ávallt með í för, í skólanum, í kaffitímum á vinnustað og hvert sem hann fór. Á unglingsárum starfaði hann hjá Adólf Óskarssyni pípulagningameistara, segja má að Dolli, eins og hann var kallaður, hafi verið eins konar guðfaðir Ásgeirs á knattspyrnusviðinu.
Adólf var forystumaður í unglingastarfi Týs, sem var félag Ásgeirs á æskuárum. Sautján ára gamall fór hinn ungi knattspyrnumaður í atvinnumennsku hjá belgíska félaginu Standard Liege. Þaðan lá leiðin til Bayern Munchen, þar sem fyrir voru miklar hetjur eins og Paul Breitner, einn frægasti leikmaður Þýskalands fyrr og síðar. Þessum frægu leikmönnum, sem margir voru úr heimsmeistaraliði Þjóðverja stóð ógn af Ásgeiri, honum tókst ekki að ná fótfestu þar og fór fljótlega til Stuttgart. Þar blómstraði okkar maður. Hápunkti ferilsins náði Ásgeir er hann leiddi félagið til meistaratignar 1984, hann bætti um betur og var kjörinn besti leikmaður þýsku deildarinnar af leikmönnum sjálfum.
Frækinn ferill Ásgeirs Sigurvinssonar með íslenska landsliðinu er einstakur, eftirminnilegur er leikur liðsins gegn A- Þjóðverjum og mark Ásgeirs í þeim leik muna allir, sem til sáu.

ÍBV Íþróttafélag óskar Ásgeiri og fjölskyldu hans til hamingju með útnefninguna, og þakkar um leið það frábæra orðspor sem hann hefir fært Vestmannaeyjum og íbúum byggðalagsins í gegnum tíðina.