Handbolti - Frábær stórsigur

29.mar.2008  18:42

Það voru Eyjamenn sem fóru með sigur af hólmi í Safamýrinni í dag, þeir mættu frískir til leiks meðan andleysi virtist hrjá Framara.

Eyjamenn hófu leikinn í dag af miklum krafti í dag og voru þeir allan tímann skrefi á undan, tölur eins og 2-5, 4-8 og 7-14 sáust á stigatöflunni. Í hálfleik voru Eyjamenn með níu marka forystu 12-19 og virtist sem Framarar væru ennþá í páskafríi. Vörn þeirra virkaði engan veginn og markvarslan var í samræmi við það. Rúnar Kárason var frískastur heimamanna á meðan Sigurður Bragason og Segiy Trotsenko báru uppi leik Eyjaliðsins.

Einhverjir hafa eflaust haldið að heimamenn myndu rífa sig upp í síðari hálfleik en sú var ekki rauninn, Eyjamenn héldu áfram að bæta í forskotið og komust mest 10 mörkum yfir. Þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum þurfti Jóhann Gunnar Einarsson að fara af velli eftir mjög gróft brot þar sem rifið var aftan í skothandlegg Jóhanns. Eftir stutt þóf á vellinum ákváðu dómarar leiksins að reka vitlausan mann útaf í 2mín, brotið verðskuldaði klárlega rautt spjald en einhvern veginn gátu annars slakir dómarar leiksins látið þetta fram hjá sér fara. Í framhaldi af þessu var reikistefna við ritaraborðið sem endaði með því að Ferenc Buday þjálfari Framliðsins fékk rautt spjald. Það sem eftir lifði leiks náðu Framarar að minnka muninn lítillega en það kom ekki í veg fyrir sanngjarnan og góðan Eyjasigur.


Framarar eru væntanlega ekki sáttir með sína frammistöðu í dag, varnarleikur liðsins var í molum og liðið virkaði frekar andlaust á vellinum. Eyjamenn voru hins vegar frískir, skynsamir sóknarlega og nýttu sér vel veikleika Framvarnarinnar.

Markaskorarar FRAM:
Rúnar Kárason 7, Andri Haraldsson 5, Halldór Jóhann Sigfússon 4, Haraldur Þorvarðarson 3, Hjörtur Hinriksson 2, Guðjón Finnur Drengsson 2, Stefán Baldvin Stefánsson 2, Jóhann Gunnar Einarsson 2, Filip Kliszczyk 2.

Markaskorarar IBV:
Sergiy Trotsenko 11, Sigurður Bragason 8, Zilvinas Grieze 7, Leifur Jóhannesson 3, Sindri Haraldsson 2, Nikolaj Kulikov 2, Grétar Þór Eyþórsson 1.


Dómarar leiksin voru Hafsteinn Ingibergsson og Gísli Jóhansson.


Eftirlitsmaður HSí var Guðjón L. Sigurðsson.