Handbolti - Hlynur í stjórn HSÍ, vill skerpa línurnar

20.apr.2007  16:26
ÍBV Íþróttafélag óskar Hlyni Sigmarssyni til hamingju með kjör í stjórn HSÍ. Handboltaáhugamenn í Vestmannaeyjum vænta mikils af starfi hans á þeim vettvangi.

Þetta er meðal þeirra áhersla sem Hlynur vill leggja áherslu á í starfi stjórnar HSÍ:

  1. Stjórn sambandsins verður að setja skýra stefnu um framtíð handboltans á Íslandi og hvernig hún ætlar að vinna að því að ná því fram. Þessa vinnu þarf strax að fara í og setja síðan fullan kraft í að vinna í þeim markmiðum sem sett verða.

  1. Að stjórnin verði virkari og sýnilegri í öllu sínu starfi og taki virkan þátt í starfi sambandsins þar sem við erum það lítil hreyfing að við þurfum á því að halda að okkar stjórnarmenn taki virkan þátt í starfinu. Við þurfum að styðja við bakið á skrifstofunni í þeirra starfi og koma þar virkum hætti inn í hið daglega starf.

  1. Stjórnin fái til liðs í nefndir og ráð öflugt fólk sem tilbúið er að leggja á sig mikla vinnu til að efla handboltann á Íslandi enn frekar. Nefndir og ráðin verði virki í sínu starfi þannig að við náum að mynda her að frábæru handboltaáhugafólki sem tilbúið er að leggja á sig mikla vinnu til að sinna ákveðnum verkefnum innan sambandsins.

  1. Stjórnin verði í nánari tengslum við félög í landinu og haldi í það minnsta einn fund á hverju ári með hverju félagi. Tengsl stjórnar og félaganna verða að vera mikil og þar þarf að ræða þau mál og finna hvað það er sem félögin vilja að stjórn og starfsmenn sambandsins séu að leggja áherslu á hverju sinni og einnig þau málefni sem stjórnin vill koma til félaganna.

  1. Formannafundir verði í það minnsta haldir þrisvar á ári. Þ.e.a.s. í júlí/ágúst, október/nóvember og mars/apríl. Á þá fundi mæti öll stjórn og starfsmenn sambandsins. Á þessum fundum verði ekki einungis spjallað um lífs og nauðsynir heldur verði þessir fundir notaðir til að koma í farveg og vinna í ákveðnum málum er snerta hreyfinguna og nauðsynlegt að síðan komi að því loknu tillögur eða niðurstöður til framkvæmda fyrir hreyfinguna. Með þessu náum við að efla tengsl félaganna sín á milli og einnig á milli stjórnar og félaga. Þá verður allt starf sambandsins markvissara með svona vinnufundum.

  1. Umgjörð deildanna á Íslandi verði efld til muna og reynt að skapa þannig umgjörð að hún nái til fólksins í landinu. Við þurfum að vinna að því hörðum höndum að auka fjölda sjónvarpsútsendinga frá deildunum á besta sjónvarpstíma sem völ er á. Að komið verði á fót handboltaþætti í sjónvarpi sem verði í kringum klukkutíma að lengd. Við stuðlum að því að sýnt verði frá bestu handboltadeildum karla og kvenna vikulega hér á landi og leikir í Meistaradeild karla og kvenna verði sýndir í hverri umferð.

  1. Lögð verði mikil áhersla á að efla útbreiðslustarfið og settur kraftur í þann málaflokk. Það verði lögð mikil vinna í grunninn á því starfi og síðan farið á fullum krafti í samstarfi við félögin, skóla, landsliðin og skrifstofu sambandsins í þá vinnu að auka útbreiðslu handboltans um allt land. Efld verði tengsl handboltans við þá skóla sem bjóða upp á handboltabrautir og reynt að styðja við bakið á þeim skólum eftir bestu getu.

  1. Lögð verði enn meiri áhersla á að fá góða styrktaraðila að sambandinu og deildinni til hagsbóta peningalega og útbreiðslulega fyrir sambandið og félögin. Þannig að sambandið geti tekist á við veigameiri verkefni og félögin njóti góðs af fjárhagslega.

  1. Haldið verði áfram á sömu braut með okkar landslið og reynt að styðja þar enn betur við bakið á því starfi sem þar fer fram núna. Við eigum að stefna að því að eiga landslið karla og kvenna í öllum aldursflokkum sem eiga að geta keppt við þau bestu í heimi hverju sinni. Þá vill ég nota velgegni landsliðanna til að auka útbreiðsluna hér heima fyrir hverju sinni með ýmsum uppákomum. Ég tel að við eigum t.d. að byrja núna á því að gera landsleik karlalandsliðsins gegn Serbum að stærsta handboltaviðburði sem fram hefur farið á Íslandi með því að færa hann í Egilshöllina og skapa þar umgjörð og umfjöllun sem aldrei hefur sést hér landi fyrr.

  1. Í öllu okkar starfi eigum við að muna að við getum ávallt gert betur og við þurfum sífellt að vera að leita leiða til að bæta okkur.