Handbolti - 8-liða úrslit í unglingaflokki kvenna

10.apr.2005  20:23
Í dag léku stelpurnar okkar í unglingaflokki í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Leikið var gegn Stjörnunni í nýja íþróttahúsi þeirra Garðbæinga, en Stjarnan endaði í 2.sæti í deildarkeppninni en ÍBV komst inn í úrslitakeppnina með því að verða meistari í 2.deild. Það var því búist við erfiðum leik enda hafa Stjörnustelpur á að skipa gríðarlega sterku liði sem hefur verið sigursælt undanfarin ár. Eyjastelpur hafa hins vegar verið á mikilli uppleið í síðustu leikjum og því voru menn bjartsýnir á að stelpurnar gætu strítt Stjörnunni í þessum leik.
 
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en ÍBV hafði yfirhöndina lengst af. Liðið náði mest þriggja marka forystu og höfðu tveggja marka forskot í leikhléi. Í seinni hálfleik var svo jafnt á nær öllum tölum og allt í járnum. Alfreð Finnsson þjálfari var sendur upp í stúku undir lok fyrri hálfleiks af dómurum leiksins en stelpurnar létu það ekki á sig fá, spýttu í lófana og börðust af krafti.
 
Þegar um 5 mínútur eru til leiksloka kemst Stjarnan yfir 20-19 eftir að ÍBV hafði haft yfirhöndina lengst af hálfleiknum. ÍBV náði að jafna leikinn en Stjarnan komst í 21-20 þegar um 4 mínútur voru eftir. Stjarnan missti svo mann útaf þegar 2 mínútur og 40 sekúndur voru eftir og fékk ÍBV nokkur góð færi til að jafna leikinn og knýja fram framlengingu. En það tókst því miður ekki og fór Stjarnan því með sigur af hólmi, í leik sem ÍBV stelpurnar áttu svo sannarlega skilið að vinna. Stjarnan er því komin í undanúrslit en ÍBV er úr leik.
 
ÍBV stelpurnar geta verið stoltar af sínum leik í dag. Þær gáfu allt sem þær gátu í leikinn og voru óheppnar að fara ekki með sigur af hólmi. Stjarnan hefur eins og áður segir á að skipa mjög sterku liði og líklega áttu flestir von á auðveldum sigri þeirra. En ÍBV stelpurnar spiluðu vel í dag og féllu með sæmd. Þær eiga framtíðina fyrir sér og vonandi munu þær halda áfram að bæta sig svona mikið, þá eigum við von á góðu á komandi tímum.