Handbolti - Móðir hvar er barnið þitt?

08.apr.2006  01:53

"Siðferðilega rangt af einu félagi að eyðileggja fyrir öðru"

Stjarnan reynir enn að sverja af sér að vera búin að semja við Florentinu Grecu eða í þann veginn að ganga frá því. Það er miður að Stjarnan geti ekki sagt sannleikann í þessu máli. Upphaf þessa máls má rekja til vorsins 2004 er ekki voru til sektarákvæði í þessu sambandi og það var víðtæk venja að ræða við leikmenn þótt tímabilið væri ekki búið. En málið er að á þessu þingi voru næstum öll félög mjög á móti því að leyft væri að ræða við samningsbundna leikmenn og hneykslaðist mikið á því er ÍBV hafði gert það og setti inn sektarákvæði í lögin til að hægt væri að taka á þessum málum sem m.a. Stjarnan taldi siðferðilega rangt að ræða við leikmenn og hneykslaðist á ÍBV fyrir að gera það. Síðan þá hefur ÍBV ekki rætt við leikmenn fyrr en að loknu tímabili hjá viðkomandi leikmanni.

Það er kannski ekki úr vegi að rifja upp umræðu þessu tengt á HSÍ þingi vorið 2004 er fulltrúi Stjörnunnar, Bergþóra Sigmundsdóttir (móðir núverandi formanns Stjörnunnar), steig í pontu og sagði m.a. orðrétt "Hún sagðist ekki kannast við það í íþróttum að verið sé að ræða við leikmenn sem eru samningsbundnir öðrum liðum." Hún "bennti einnig sérstaklega á að Stjarnan væri að undirbúa sig fyrir leik á morgun á móti Val um annað sætið og fyndist það siðferðilega rangt af einu félagi að EYÐILEGGJA fyrir öðru með því að ræða við leikmenn í miðjum undirbúningi. Hún sagði að verið væri að keppa núna ekki í haust."

Vegna fréttatilkynningar Stjörnunnar þá þykir mér rétt að koma eftirfarandi atriðum að.

1. Er heimilt að ræða við leikmann í gegnum umboðsmann? Hvers vegna töluðu þið ekki bara við manninn hennar? Er það rétt að Jelena leikmaður Stjörnunnar hefur verið að ræða við Florentinu vegna félagaskipta yfir í Stjörnuna?

2. Varla ætlar umboðsmaðurinn að fara að vera í marki Stjörnunnar? Er þá Stjarnan búin að semja við Florentinu?

3. Hvenær ræddi Hlynur Sigmarsson síðast við leikmenn Stjörnunnar, það var vorið 2004 þegar að þið kvörtuðu yfir þessu á þingi HSÍ og fenguð sett inn sektarákvæði út af þessu.

4. Hvernig væri að leggja á sig smá vinnu í Garðabænum?

5. Ekki setja ykkur í dómarasæti um það hver skaðar hvern meir. Lítið ykkur nær. Ef það eru ofsafengin viðbrögð að senda inn kæru og láta dómstóla um að dæma í máli. Þá ættum við að búa í öðru landi.

6. Það er ekki okkar mál þótt haft hafi verið samband við ykkar leikmenn, það er á milli ykkar og þeirra félaga og ætti að fara sína leið með kærum ef þið hafið áhuga á því.

7. Lið ÍBV 2003/2004 samanstóð af 14 leikmönnum, 1 þjálfara, fjölda stjórnarmanna og stuðningsmanna og bak við það var frábært 4.000 manna bæjarfélag. Það er ekki þjálfari sem vinnur sigra það er LIÐIÐ. Ég trúi ekki öðru en að þjálfari Stjörnunnar kvíði að mæta til Eyja og keppa við Íslandsmeistarana. Ég trúi ekki öðru en að Eyjamenn taki vel á móti Alla og Stjörnunum hans. Við þurfum bara að muna að til er fólk sem ber hlýjar tilfinngar til hvors annars og það samband þarf að umgangast af varkárni, ekki "business".

8. Er maður sinnir stjórnunarstarfi innan HSÍ, sem fulltrúi allra félaga þá á hinn sami ekki að vinna í því bak við tjöldin að brjóta lög HSÍ í félagaskiptamálum. Þetta þurfum við að passa að þegar menn sinni stjórnunarstörfum innan HSÍ þá fylgi þeir lögum sambandsins. Ég vona að Bragi eigi eftir að ganga vel að safna peningum fyrir kvennalandsliðið og eflaust veitir ekki af. Vonandi einnig að hann eigi eftir að starfa sem lengst innan Stjörnunnar og farnist það starf vel úr hendi.

9. Það er gott að þið takið vel á móti fjölmiðlamönnum, þar sem eflaust veitir ykkur ekki af því.