Eimskip og handknattleiksdeild ÍBV hafa undirritað samstarfssamning um að Eimskip verði aðalstyrktaraðili ÍBV næstu tvö keppnistímabil.
Sigursveinn Þórðarson, svæðisstjóri Eimskips í Vestmannaeyjum, undirritaði samninginn fyrir hönd fyrirtækisins og sagði við þetta tilefni:
„Íþróttalífið í Vestmannaeyjum hefur alla tíð verið metnaðarfullt og haft mikið forvarnargildi fyrir samfélagið hér. Það er okkur hjá Eimskip mikil ánægja að geta stutt vel við það góða starf sem handknattleiksdeildin hér vinnur og gefið þannig til baka til svæðis og samfélags sem við höfum lengi átt í góðum tengslum við.“
Hjörvar Gunnarsson, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV, er ánægður með þetta nýja samstarf. „Það er frábært fyrir okkur að fá fyrirtæki eins og Eimskip til að styðja við bakið á okkur. Þessi samstarfssamningur er gríðarlega mikilvægur þeirri vegferð sem við erum á og hjálpar ÍBV mikið að ná okkar markmiðum.“