Handbolti - Hvar viljum við sjá handboltann á komandi árum?

29.mar.2006  01:33

1988, 192, 1996, 2000, 2004, 2008 og ?

Nú þegar að aðeins eru tæpir þrír dagar til HSÍ þings er ekki úr vegi að velta fyrir sér nokkrum atriðum er ég hef velt fyrir mér að á undanförnu. Ég tel að ef við tjáum okkur opinskátt um málefni handboltans muni það verða hreyfingunni til góðs til lengri tíma. Með því móti fáum við fram ólíkar skoðanir og vonandi finna út hvað við teljum best fyrir hagsmuni handboltans.

Á komandi þingi eru ýmis mál rædd og farið yfir þær tillögur er liggja fyrir þinginu og stjórn HANDKNATTLEIKSSAMBANDS ÍSLANDS kosin. Við verðum að vona að þetta þing fari vel og að ný forysta sambandsins fái góða kostningu sem veiti henni fullt traust til komandi verkefna. Þar sem verkefnin eru ærin og full ástæða fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvað við viljum að gerist í okkar starfi á komandi árum. Erum við sátt við okkar starf undanfarin ár eða viljum við breyta einhverju og hverju þá? Eða eigum við að halda áfram á sömu braut og hvert leiðir það okkur? Við verðum að muna að án breytinga þá breytist ekkert.

Ég ætla hér á eftir að ræða um innra starf félaganna, markaðs- og kynningarmál, sjónvarpsmál og útbreiðslumál. Á miðvikudag eða fimmtudag mun ég síðan ræða um dómaramál, leikjafyrirkomulag, forystu HSÍ og vinnubrögð nefnda og dómstóla.

Innra starf félaganna

Ég hef nokkuð velt fyrir mér starfsemi okkar félaga. Ég tel að við megum gera þar margt mun betur og ef ég lít á okkar félag þá er margt sem má þar betur fara. Það er einnig e.t.v. best að byrja í sínum heimahaga að taka til áður en maður lítur í aðra haga. Það er því miður þannig að það er orðið erfitt að fá fólk til starfa í kringum félagstarfsemi þar sem það er orðið svo margt annað höfðar til fólks. Ég tel því að við þurfum virkilega að leita víða til að fá fólk í starfið og ekki endilega af fólki sem hefur áhuga á handbolta, heldur fólki sem er duglegt og mun leggja sig fram í starfinu. Við þurfum að fá fólk inn sem tilbúið er að axla ábyrgð og taka að sér og leiða verkefni innan félagsins. Við megum heldur ekki vanrækja félagsþátt sjálfboðaliðana sem ég tel að við gleymum allt of oft. Ef vel á að vera þurfum við einnig að hittast og eiga góðar stundir saman en ekki bara að huga að þörfum annarra. Við þurfum að deila verkum meir og finna ábyrgt fólk til að leysa hin ýmsu verkefni deildarinnar. Ég held einnig að við þurfum að standa oft nær okkar fólki, eins og leikmönnum og þjálfurum og láta þau finna fyrir nærveru okkar. Þetta er m.a. það sem ég verið að velta fyrir mér í okkar starfi og tel að við þurfum að vinna vel í ef ekki á að fara illa. Þannig að nú er bara að skamma sjálfan sig og hvetja mann til að gera eitthvað í þessu.

Markaðs og kynningarmál

Ég tel okkur mjög döpur í öllu kynningarstarfi og það eina jákvæða við deildina í vetur er DHL-síðan sem aðeins sum félög hafa sinnt vel (ÍBV er ekki eitt þeirra). Þetta er lofsvert framtak og ég tel að á næsta keppnistímabili sé hægt að gera enn betur og vonandi verða slöku félögin enn betri í að setja inn fréttir en nú er. Ég tel nauðsynlegt fyrir félögin að fá alveg utanaðkomandi manneskju til að setja inn fréttir ef vel á að vera og hvetja þá manneskju til góðra verka. Ef við náum að gera þessa síðu enn betri en nú er mun þessi síða auka enn frekar markaðsgildi handboltans.

Heimasíður félaga eru mis vel uppfærðar og ég held að það sé það sama þar, við þurfum virkilega að finna áhugasamt fólk þar til að halda þeim lifandi. Þar sem lifandi og góðar heimasíður er frábær kynning á starfinu og góð auglýsing fyrir handboltann.

Kynning styrktaraðila á deildinn er ekki nógu mikil að ég tel og við getum einnig e.t.v. við okkur sjálf að sakast. Við getum e.t.v einnig gert ýmislegt með ódýrum hætti t.d. að kynna deildina fyrir krökkum, eldra fólki, vinnustöðum o.sframv.

Allt hér að ofan krefst sjálfboðaliða og því miður er oft hörgull á því. Þannig að enn og aftur komum við að því hve mikilvægt það er að við leggjum höfuðið í bleyti og finnum áhugasamt fólk.

Sjónvarpsmál

Ég tel að við getum gert betur í að koma leikjum okkar í sjónvarp en nú er. Umfjöllunin um handboltann er ekki nógu góð að mínu mati. Sjónvarpsstöðvarnar eru bara þannig að þau vilja fá efni tilbúið til sín og því velti ég því fyrir mér hvort að hvert og eitt félag geti unnið sjónvarpsefni fyrir sjónvarpsstöðvar eftir hvern leik. Efninu er síðan komið til viðkomandi sjónvarpsstöðvar sem veltir fyrir sér gæðum efnisins. Ef hún telur það uppfylla sína staðla þá er það birt. Þannig fengju þau félög sem væru að vinna þetta vel fleirri mínútur í sjónvarpi sem síðan gerði þeim e.t.v. auðveldara að finna styrktaraðila. Við eigum að gera kröfu með að hafa einu sinni í viku spjallþátt um handbolta sem er eins klukkutíma langur og þar sé rætt um handboltann og sýnd t.d. viðtöl og skot úr leikjum. Þá á að vera einnig annar 20-30 mínúta þáttur þar sem farið er yfir úrslit í handboltanum og sýnt frá leikjum.

Það verði ávallt sýnt einu sinni í viku beint frá einum leik í kvenna og karladeildinni. Að auki verði kannað með möguleika á að sína beint frá þýska karlaboltanum og danska kvennaboltanum einu sinni í viku. HSÍ, sjónvarpstöð og styrktaraðili vinni að þessu saman og með núttíma tækni eru ýmsir möguleikar eflaust á þessu sem vert er að skoða. Ég veit að þetta kostar sitt en ef við félögin getum unnið okkar efni til sjónvarpsstöðvarinnar fyrir utan beinu útsendinganna þá ætti það að lækka kostnaðinn eitthvað við þetta. Við gætum einnig e.t.v. tekið að okkur að sjá um þennan spjallþátt. Síðan verðum við að vinna að með sjónvarpsstöðinni að fá styrktaraðila á beinu útsendingarnar ef á þarf að halda. Við þurfum allavega að leggja mikla vinnu í þetta og sjá hvort þetta sé framkvæmanlegt eður ei, ef ekki hægt þá vitum við það en þó ekki fyrr en í fulla hnefanna.

Útbreiðslumál

Hvernig eru útbreiðslumálum háttað í okkar félagi. Eflaust segjum við mörg ekki nógu góð. Við þurfum því að sparka í okkur og hvetja okkur sjálf og okkar fólk til að hleypa lífi í það. Erum við með nóg af krökkum? Hvernig fáum við þau inn? Er við vitum hvernig við eigum að fá þau inn erum við þá að framkvæma það sem þarf? Erum við með góða þjálfara? Gott unglingaráð? Gott íþróttafélag? O.s.framv.? Er ekki margt hér sem við getum lagað og reynt að leggja betri rækt við.

Erum við t.d. að sækja krakanna í skólana, hvetja áhugaverða krakka til að mæta, fá mfl. til að mæta á æfingar, bjóða krökkum frítt á leiki, bjóða krökkum í eitthvað áhugavert fyrir utan handbolta, er skólamót, er gaman á æfingum, er afrekstefna o.sframv.

Ef við vinnum ötulega í þessu getum við að ég heldi náð fleirri iðkendum sem mun þá vonandi skila sér í fleirri og betri leikmönnum.

Ég tek það fram að ég er ekki manna bestur og þarf margt að bæta hjá mér sem einstaklingi sem og í okkar starfi hjá ÍBV. Að leiða hugann að þessu og ræða þá tel ég vera leið til að hvetja mann og aðra til betri verka.

Þessi texti að ofan er sleginn beinnt inn í tölvu og ekki yfirfarin og ég bið ykkur afsökunar á málfarsvillum sem kunna að vera og e.t.v. er ýmislegt ekki nógu skýrt. En það að koma þessu á skjáinn var ætlunin og ef einhver hefur áhuga að taka þátt í þessum umræðum um handboltann í landinu þá hvet ég þau sömu til þess og þá vonandi undir nafni.

Hlynur Sigmarsson