Handbolti - Stúlkurnar komnar í efsta sætið

27.mar.2006  01:18

Það fór allt á besta veg fyrir Eyjastúlkur sl. laugardag, en liðið tók á móti Gróttu í næst síðustu umferð Íslandsmótsins. ÍBV var ekki í vandræðum með gestina og sigruðu 28:22. Augu flestra beindust hins vegar að leik Vals og Hauka sem fór fram á sama tíma en þar höfðu Valsstúlkur betur. Það þýðir að fyrir síðustu umferðina er ÍBV í efsta sæti, einu stigi á undan Val og Haukum og dugir sigur gegn HK á útivelli til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Í raun er ekki mikið um leikinn gegn Gróttu að segja, Eyjastúlkur voru hálf kærulausar á upphafsmínútunum en eftir slappa byrjun tóku þær öll völd á vellinum og voru með tíu marka forystu í leikhléi, 17:7. Í síðari hálfleik fengu varamenn ÍBV að reyna sig en þá náðu gestirnir að minnka muninn en engu að síður var sigur ÍBV aldrei í hættu. Lokatölur urðu 28:22 en markahæstar voru þær Pavla Plaminkova með þrettán mörk og þær Simona Vintila og Ingibjörg Jónsdóttir skoruðu fimm mörk hvor. Florentina Grecu varði 22 skot í marki ÍBV en markahæst hjá gestunum var skyttan Ivana Veljkovic með 11 mörk.

Tekið af www.eyjafrettir.is