Handbolti - Frestað vegna ófærðar?

07.apr.2005  12:18
Sömu reglur eiga að gilda fyrir alla segir talsmaður Eyjamanna
Á þriðjudagskvöld átti fyrsti leikur ÍBV og Fram að fara fram hér í Eyjum en liðin eigast við í átta liða úrslitum Íslandsmótsins.  Eins og gefur að skilja var mikil eftirvænting í Eyjum eftir leiknum enda hefur ÍBV ekki oft komist í úrslitakeppnina undanfarin ár og aldrei verið spáð eins góðu gengi og í ár.  Það kom því eins og ísköld vatnsgusa þegar HSÍ tilkynnti að leiknum væri frestað vegna ófærðar.  Tilkynningin kom frá HSÍ um fjögurleytið en þá var ekki enn búið að fresta áætlunarflugi Landsflugs og samkvæmt upplýsingum sem forráða- menn handboltans fengu þá var flugfært til Eyja.  Hins vegar var veðurspáin slæm og ljóst að spáin hefur ráðið því hvort af leiknum yrði eða ekki.

Þessu eiga Eyjamenn erfitt með að kyngja, ekki síst í ljósi þess að liðið hefur nokkrum sinnum farið af stað með hádegisflugi á leikdegi vegna þess að veðurspáin var slæm.  Þá hefur Eyjaliðið oft setið veðurteppt á fastalandinu og einnig þurft að ferðast með Herjólfi.  Þá var ekki frestað.

Róbert Geir Gíslason, starfsmaður hjá HSÍ, hefur með mótastjórn að gera og hann sagði í samtali við Fréttir að HSÍ hafi aðeins haft einn valmöguleika, að fresta leiknum.  „Við vorum í sambandi við bæði flugfélögin, Landsflug og Flugfélag Vestmannaeyja og um hálf fimm fengum við þau skilaboð frá báðum flugfélögunum að ófært væri til Eyja og ekkert útlit til þess að flogið yrði.  Þá var ekkert annað að gera en að snúa dómurunum við, sem voru á leiðinni út á Bakka, og fresta leiknum.  Við reyndum að hringja í önnur flugfélög og athuga stöðuna hjá þeim, hvort þau gætu flogið til Eyja en alls staðar fengum við sömu svör, það var ófært til Eyja.“

Páll Marvin Jónsson í handknattleiksráði sagði í samtali við Fréttir að það hefði komið illa við Eyjamenn að fresta leiknum.  „Það er alltaf slæmt þegar þarf að fresta leikjum og þess vegna eru reglur hjá HSÍ að fresta ekki nema í algjörri neyð.  Það má auðvitað deila um það hvort þarna hafi verið um algjöra neyð að ræða, Framarar og dómararnir hefðu getað komið fyrr um daginn en þá hefðu þeir orðið veðurtepptir hérna.  Mig grunar að HSÍ hafi verið undir pressu frá Frömurum að fresta leiknum út af veðurspánni og því miður hefur forystan látið það eftir þeim.  Okkar skilaboð til HSÍ eru núna þau að ef ekki á að reyna flug fram á síðustu stundu, þá skal það gilda um alla, líka ÍBV.  Við höfum þurft að bíða eftir flugi langt fram undir kvöld, áður en leik hefur verið frestað.“

Nú segja forráðamenn HSÍ að þeir hafi fengið skilaboð um að ófært hafi verið til Eyja og þess vegna hafi leiknum verið frestað?  „Það er skrítið því ég var uppi í flugturni um sexleytið og þá fyrst var flugi aflýst hjá Landsflugi.  Leiknum var hins vegar frestað um klukkan fjögur.  Þetta mál er allt hið leiðinlegasta en við ætlum ekki að standa í neinu stappi vegna þess.  Þetta er nú að baki og vonandi tekur við skemmtileg rimma gegn Fram,“ sagði Páll að lokum.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust á afgreiðslu Landsflugs í Vestmannaeyjum var flugvél félagsins biluð.  Þegar viðgerð var lokið um kl. sex síðdegis var orðið ófært.  Hjá Flugfélagi Vestmannaeyja fengust þær upplýsingar að síðdegis hafi verið ófært en um fimmleytið hafi opnast fyrir flug og var hægt að fljúga eina ferð á Bakka áður en orðið var ófært að nýju.

Tekið úr vikublaðinu Fréttir.