Handbolti - Lykilmaður í sterku liði

04.apr.2005  13:23

Kári Kristján Kristjánsson lék vel með U-21 árs landsliði Íslands
Kári Kristján Kristjánsson, leikmaður ÍBV var í fremstu víglínu um páskahelgina með íslenska U-21 árs liðinu í handbolta en liðið lék á heimavelli í undanriðli Heimsmeistarakeppninnar.  Kári lék stórt hlutverk með íslenska liðinu, lék í hjarta varnarinnar og lék svo á línunni í sókninni.  Og eyjapeyinn stóð sig vel, vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína og var að lokum valinn í úrvalslið mótsins.

Íslenska liðið lék þrjá leiki um helgina, gegn Hollandi, Austurríki og Úkraínu og unnu þá alla enda tefldi Ísland fram geysilega sterku liði í riðlinum.  Þar með vann liðið sér inn sæti á úrslitakeppni Heimsmeistaramótsins sem fer fram í Ungverjalandi í ágúst í sumar.

 “Þetta var bara flott, alveg magnað,” sagði Kári í samtali við Fréttir í síðustu viku.  Hann segir að íslenska liðið hafi rennt nokkuð blint í sjóinn um helgina.  “Við vissum í raun lítið sem ekkert um andstæðingana.  Þó vissum við að Austurríki hefði endaði í sjöunda sæti á síðasta heimsmeistaramóti og við bjuggumst við þeim sterkum.  Þegar upp var staðið voru þeir auðveldastir.  Leikurinn gegn Hollendingum var líka nokkuð léttur en við vissum ekkert hvar við hefðum þá en leikurinn gegn Úkraínu var sá erfiðasti,” segir Kári en leiknum var sjónvarpað í beinni útsendingu og sáu sjónvarpsáhorfendur Kára fara á kostum, bæði í vörn og sókn.  Kári var með mjög góða skotnýtingu í leiknum, skoraði fimm mörk úr sex skotum og fiskaði auk þess þrjú vítaskot.

Tekið úr vikublaðinu Fréttum.