Handbolti - Furðulegt mótahald hjá 4.fl.kvenna

23.mar.2005  12:14
Stelpurnar í 4.fl.kvenna kepptu tvo leiki um síðustu helgi í 4.umferð Íslandsmótsins.  Var þessi umferð vægst sagt stórfurðuleg.  Eitt lið dró sig úr keppni en sá samt sem áður um framkvæmd umferðarinnar.  Þegar að við ÍBV mætti til leiks átti fyrsti leikur umferðarinnar að vera byrjaður, en það var leikur FH og Fram.  En þar sem að það vantaði dómara og tímaverði gat leikurinn ekki hafist.  Þegar að loksins var búið að kalla út tvo stráka til þess að dæma og finna einhvern sem gat verið tímavörður gat þessi leikur loksins hafist.  Það var strax kominn 30 mínútna seinkun á leikjunum.  Fyrri leikur ÍBV var gegn Fram, en Fram liðið hafði tapað fyrir FH rétt áður.  Þetta var ágætlega leikin leikur af hálfu ÍBV en því miður þá tapaðist þessi leikur 14-17.  Elísabet Þorvaldsdóttir átti góðan leik í markinu, auk þess áttu Nína og Anna María góða spretti í þessum leik.  Seinni leikurinn var gegn FH og var um hörkuleik að ræða en sá leikur tapaðist einnig, 13-18.  Sem fyrr stóð Elísabet sig með sóma í markinu og var hún jafnbesti leikmaðurinn í þessum tveimur leikjum.  Annars voru stelpurnar að spila flottan handbolta og með þessu áframhaldi er framtíðin björt hjá þessu stelpum.
 
 
Í lokin er ekki annað hægt en að kvarta undan mótshaldinu á þessari umferð.  Lélegir og lítt reyndir dómarar dæmdu alla þrjá leiki umferðarinnar, mjög ungir strákar voru tímaverðir og ritarar og kunnu þeir ekkert til þeirra starfa.  Er ekki verið að kasta róg á þeirra störf, eflaust að gera sitt besta til þess að bjarga sínu félagi, en við hjá ÍBV hljótum að spyrja okkur að því hvað yrði sagt ef að við stæðum svona að hlutunum hérna.  Það má ekki gleyma því að stelpurnar eru að leggja mikið ferðalag á sig og mikinn kostnað til þess að geta tekið þátt í Íslandsmótinu, og eiga þær betra skilið en svona framkomu frá mótshaldara.