Handbolti - Elliði Snær til Gummersbach!

20.ágú.2020  08:25

Elliði Snær Viðarsson hefur samið við þýska liðið Gummersbach sem leikur í næst efstu deild í Þýskalandi. Fyrr í sumar var Guðjón Valur Sigurðsson ráðinn þjálfari Gummersbach og vildi hann fá Elliða til liðs við sig fyrir baráttuna í vetur.

Elliði er 21 árs gamall línumaður sem hefur leikið með ÍBV allan sinn feril. Hann var hluti af liði ÍBV í 4.flokki sem varð Íslandsmeistari árið 2014, en það var fyrsti Íslandsmeistaratitill sem karlalið hjá ÍBV vann í handknattleik. Árið 2015 lék Elliði sinn fyrsta meistaraflokksleik, þá aðeins 16 ára gamall og sama ár var hann valinn í U-17 ára landslið og fór með þeim á æfingamót og HM yngri landsliða.

Árið 2016 fór hann í undanúrslit með mfl.karla á sínu fyrsta heila tímabili, var valinn besti leikmaður 3.flokks og hlaut Fréttabikarinn fyrir að vera efnilegasti leikmaður mfl.karla. Þetta ár var hann hluti af U-18 ára landsliðinu og fór með þeim á EM og æfingamót.

2017 var Elliði bæði í U-19 og U-21 landsliðum Íslands og var verðlaunaður í lok tímabils fyrir mestu framfarir í mfl.karla.

Árið 2018 var stórt á ferli Elliða hjá ÍBV, eins og hjá öðrum tengdum liðinu. Það tímabilið vann liðið alla titla sem í boði voru: deildarmeistara, bikarmeistara og Íslandsmeistaratitilinn. Jafnframt fór liðið alla leið í undanúrslit í EHF Challengers cup og er það stórkostlegur árangur. Hann lék einnig með U-20 landsliðinu þetta ár. Um haustið vann liðið svo meistara meistaranna og voru þeir þá handhafar allra 4 titlanna í handknattleik karla á Íslandi

2019 fór mfl.karla í undanúrslit Íslandsmótsins, Elliði var valinn ÍBV-ari á lokahófi handknattleiksdeildar og var svo fyrirliði U-21 landsliðsins á HM um sumarið.

Síðasta árið hans hjá ÍBV í bili, 2020, varð Elliði bikarmeistari með mfl.karla og var valinn ÍBV-arinn á lokhófi handknattleiksdeildar í vor (annað árið í röð)og því hægt að segja að hann hafi kvatt með stæl.

Til viðbótar við það að gefa allt í leikinn inn á vellinum, vera hvetjandi og dugmikill innan vallar hefur Elliði alltaf haft mikil áhrif á fólk í félaginu, jafnt unga sem eldri. Hann er einstaklega mikill og góður félagsmaður og hefur alltaf verið boðinn og búinn í öll þau verkefni sem hann hefur þurft að taka sér fyrir hendur.

Við hjá ÍBV erum ótrúlega stolt af þessu frábæra tækifæri sem Elliði Snær er að fá. Við viljum þakka honum innilega fyrir frábæran tíma hjá ÍBV og óskum honum velfarnaðar á stóra sviðinu og munum  fylgjast vel með honum þar.

Elliði er Eyjapeyi í húð og hár og það aldrei að vita nema við sjáum hann aftur í ÍBV treyju þegar árin líða.

Áfram ÍBV

Alltaf, alls staðar!