ÍBV á Evrópuleik um helgina gegn PAUC frá Frakklandi. Þetta er risastórt lið sem endaði í 5. sæti í frönsku efstu deildinni á síðustu leiktíð. Franska deildin er talin vera sú sterkasta um þessar mundir enda voru þrjú lið í Final 4 í Meistaradeildinni í maí.
PAUC er lið sem vann sér sæti í efstu deild Frakklands árið 2012, einu ári áður en ÍBV kom sér aftur upp í efstu deild. Liðið fékk Karabatic bræðurna til sín og léku þeir með liðinu 2012-13.
Það sem er einnig áhugavert við PAUC er það að Jerome Fernandez, einn sigursælasti leikmaður allra tíma í íþróttinni, er þjálfari liðsins og hefur verið frá 2015. Fernandez lék með Barcelona í sjö ár, síðan með Ólafi Stefánssyni hjá Ciudad Real. Eftir það lék hann með Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, og síðan sem spilandi þjálfari hjá PAUC, frá 2015 áður en hann setti skóna á hilluna í fyrra. Með þessum liðum vann hann ótal titla.
Þá er ferill hans með franska landsliðinu engum líkur og varð hann Ólympíumeistari 2008 og 2012, auk þess sem hann varð heimsmeistari 2001, 2009, 2011 og 2015 og Evrópumeistari 2006, 2010 og 2014.
Þetta verður 17. Evrópuleikur ÍBV, sá fimmtándi frá árinu 2014, þar sem ÍBV lék í fyrsta sinn í Evrópukeppni í rúm 20 ár. Liðið hefur sigrað 8 af þessum fjórtán leikjum, komst alla leið í undanúrslit Áskorendakeppni Evrópu þar sem liðið féll úr leik gegn Potassia Turda, eftir sigur á heimavelli, en tap í Rúmeníu.
Allir á völlinn
Áfram ÍBV