Handbolti - ÍBV semur við Drífu og Theodór

05.apr.2013  21:40
 ÍBV samdi rétt í þessu við tvo unga handknattleiksmenn, Drífu Þorvaldsdóttur og Theodór Sigurbjörnsson en þau hafa staðið sig gríðarlega vel þrátt fyrir ungan aldur með meistaraflokkum ÍBV og verið í yngri landsliðum Íslands. 

Undirskriftin fór fram klukkan 20:30 í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja fyrr í kvöld.
Theodór samdi til þriggja ára en hann er fæddur 1992, hann er örvhentur og getur spilað sem skytta en einnig hornamaður. 
Theodór hefur verið í U-21 ára landsliði Íslands undanfarið, honum hefur einnig gengið mjög vel með ÍBV sem tryggði sér efsta sætið í fyrstu deild á dögunum, en hann er einn af markahæstu leikmönnum liðsins á eftir Nemanja Malovic sem yfirgaf liðið fyrir stuttu síðan. ÍBV mun spila í N1-deild karla á næstu leiktíð og er það ljóst að Theodór á eftir að vera mikils virði fyrir Eyjaliðið á næsta tímabili en Theodór er með efnilegri leikmönnum Íslands í dag.

Drífa er fædd árið 1994 hún samdi til tveggja ára, hún er einnig örvhent og spilar yfirleitt í skyttu eða horni hjá meistaraflokki ÍBV, en hún hefur verið með U-19 ára landsliði kvenna í seinustu verkefnum. Drífa er virkilega efnileg og hefur nýst ÍBV liðinu vel og á eftir að spila stóran sess í leik liðsins í úrslitakeppninni en ÍBV vann einmitt FH í framlengdum leik í gærkvöldi og þótti Drífa standa sig nokkuð vel. ÍBV spilar við FH klukkan 13:30 í Kaplakrika á morgun og getur þá tryggt sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Tekið af Fimmeinn.is