ÍBV-FH

Handbolti - Úrslitakeppni N1 deild kvenna

04.apr.2013  16:26
  Kvennalið ÍBV tekur á móti FH í dag klukkan 18:00 í Íþróttamiðstöðinni í fyrstu umferð 8-liða úrslita Íslandsmóts kvenna í handbolta.  ÍBV endaði í þriðja sæti deildarinnar á meðan FH endaði í því sjötta, eftir harða baráttu við HK og Stjörnuna um fjórða sætið.
 
ÍBV vann heimaleikinn í deildarkeppninni með níu mörkum, 27:18 en útileikinn með sjö, 19:26.  FH-liðið sótti hins vegar í sig veðrið á lokakafla Íslandsmótsins og er verðugur andstæðingur.  Flestir reikna þó með að ÍBV fari áfram í undanúrslit.  Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram.  Næsti leikur er svo á laugardaginn í Hafnarfirði og ef þriðja leikinn þarf til, verður hann á mánudaginn.
 
Eins og áður hefur komið fram varð ÍBV fyrir áfalli í lok deildarkeppninnar þegar línumaðurinn sterki Ivana Mladenovic var vísað úr landi.  Ingibjörg Jónsdóttir svaraði hins vegar neyðarkalli ÍBV, tók skóna niður úr hillunni margfrægu og mun leika með ÍBV út tímabilið.
 
Aðrar viðureignir í 8-liða úrslitum eru Valur-Haukar, Fram-Grótta og Stjarnan-HK.