Karlaliðið leikur í dag mjög mikilvægan leik við vaxandi lið Gróttu. Liðin áttust við fyrir 3 vikum þar sem ÍBV sigraði með einu marki þegar Guðni Ingvarsson skoraði beint úr aukakasti í þann mund sem tíminn rann út. Það er nokkuð ljóst að þessir 4 leikir sem eru eftir af tímabilinu verða hrikalega spennandi og hver öðrum mikilvægari. Sigri ÍBV alla þessa leiki hafnar liðið í fyrsta sæti og fer beint í úrvalsdeild að ári. Við settum okkur í samband við annan þjálfara liðsins, Arnar Pétursson, og spurðum út í lokabaráttuna.
Mikið hefur borið á meiðslum í hópnum að undanförnu, jafnvel hjá lykilleikmönnum. Hvernig er staðan á hópnum fyrir lokabaráttuna?
Já þær voru slæmar fréttirnar af Binna Kalla og við söknum hans mikið. Góðu fréttirnar eru hinsvegar að Andri Heimir fór í gegnum góða æfingu með okkur í gær og við reiknum með honum sterkum í kvöld. Gömlu mennirnir Siggi Braga og Sindri Haralds eru lúnir hér og þar en það er karakter í þessum strákum og þeir fórna sér í þá leiki sem eftir eru og hvíla sig svo í sumar. Aðrir eru 300% heilir!
Eruð þið þjálfarar ánægðir með þróunina á liðinu í vetur, er þetta skv ykkar uppleggi í upphafi móts?
Já við erum ánægðir með það hvernig veturinn hefur þróast. Að okkar mati hafa leikmenn og liðið í heild sinni verið að bæta sig í allan vetur og það er klárlega eins og við vildum sjá hlutina þróast. Ungir og efnilegir strákar hafa fengið tækifæri og spilað töluvert og ef þeir strákar halda áfram á sömu braut er ekki nokkur vafi að þessi vetur mun hjálpa mikið í framtíðinni. En það er nóg eftir að þessum vetri, snjórinn er ekki einusinni kominn og flottir leikir framundan.
Nú eru 7 leikmenn komnir á skólastyrktarsamning hjá klúbbnum í samvinnu við akademíu ÍBV og FÍV. Hvernig finnst þér þetta fyrirkomulag?
Mér finnst það frábært. Ég hef fylgst vel með akademíunni frá því að hún fór af stað og veit hversu öflug hún er og hversu mikið krakkarnir eru að læra þar. Því finnst mér sú ákvörðun handboltaráðs að taka þátt í þessu og hjálpa okkar efnilegu krökkum til fyrirmyndar og klárt mál að þetta skilar ÍBV vel þjálfuðu íþróttafólki og samfélaginu flottum og öflugum krökkum.
En að leiknum í kvöld. Þið spiluðuð við Gróttu um daginn þar sem eins marks sigur vanst á síðustu sek leiksins. Hinsvegar sigraðið liðið Gróttu mjög örugglega í fyrstu umferð (35-18). Hvernig skýrir þú þennan mun?
Það er nú þannig stundum í íþróttum að þið hittir á sinn besta dag þar sem allt gengur upp og stundum gerist hið gagnkvæma að lið hittir á sinn versta dag þar sem ekkert gengur upp. Í fyrri leiknum held ég að við höfum hitt á okkar besta dag á meðan Grótta fór í gegnum sinn versta, því fór sem fór. Seinni leikurinn endurspeglar miklu frekar styrkleika liðinanna og hversu lítið ber á milli. Sá leikur hefði alveg eins getað dottið Gróttu meginn en strákarnir sýndu gríðalegan karakter og vilja sem skiluðu heim tveimur frábærum stigum.
Hverja telur þú helstu styrkleika Gróttuliðsins?
Grótta er með mjög sterka vörn og þeir keyra hratt fram og refsa grimmilega fyrir öll mistök. Við verðum því að vera skynsamir frammi og koma hratt til baka.
Það hefur sannað sig í gegnum tíðina að heimavöllurinn í Eyjum hefur alltaf verið sterkur, kemur hann til með að spila stórt hlutverk á þessum lokakafla?
Ekki nokkur spurning! Það er fátt yndislegra en að spila fyrir framan stemninguna eins og hún getur best orðið í gamla salnum og klárt mál að á góðum degi er ekkert íþróttahús í heiminum sem jafnast á við gamla salinn í stuði. Því hvet ég alla til að fjölmenna og láta í sér heyra á þessum 3 heimaleikjum sem eftir eru og vera strákunum sem áttundi maður í lokabaráttunni. Ballið byrjar í kvöld og hvað er betra en að mæta á ÍBV - Grótta klukkan 18:00, láta öllum illum látum. Slaka svo á og horfa á 2 laaang bestu knattspyrnulið allra tíma leika listir sínar í beinni á stöð 2 sport á eftir. Þetta er uppskrift að fullkomnu kvöldi.