Handbolti - Skoraði mark nr 1000!

19.mar.2012  12:35

Strákarnir í handboltanum unnu mikilvægan sigur á Víkingum í Víkinni á laugardaginn, það verður ekki annað sagt að þessi sigur hafi verið kærkominn eftir rysjótt gengi eftir áramót.

 

Markahæstir í liði Í.B.V. voru þeir Pétur Pálsson og Sigurður Bragason með sitthvor 6 mörkin. Fimmta mark Sigurðar í leiknum var þó sérstakt fyrir þær sakir að það var mark númer eittþúsund sem Siggi skorar fyrir ÍBV í deildarkeppnum á Íslandsmóti.

 

Siggi skoraði sitt fyrsta mark í sínum fyrsta leik gegn Fjölni árið 1994 (gaman að geta þess að sama ár fæddust nokkrir af yngstu leikmönnum æfingahópsins í dag). Síðan þá hefur Siggi verið 332 á leikskýrslum fyrir ÍBV og skorað eins og áður segir 1001 mark, þá eru ekki taldir með bikar og æfingaleikir. Siggi er að sjálfsögðu markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi en á eftir honum koma Zoltán Belányi með 929 mörk og Svavar Vignisson með 787 mörk. Siggi hefur allan sinn feril leikið með ÍBV ef frá er talið keppnistímabilið 2000-2001 þegar Siggi lék með Víkingum.

 

Peyinn sem verður 35 ára í sumar er því um þessar mundir að leika sitt 17 tímabil með félaginu og er hvergi nærri hættur. ÍBV óskar Sigga að sjálfsögðu til hamingju með áfangann.