Handbolti - Sigur í Grafarvogi

12.des.2011  22:38
 Þrátt fyrir válynd veðurbrigði um helgina komust okkar menn til meginlandsins á laugardag til að etja kappi við Fjölni á heimavelli þeirra við Dalhús í Grafarvogi.  Af eyjamönnum í liði Fjölnis var Birkir Már Guðbjörnsson sá eini í hóp. Sigurður Bragason og Grétar Þór Eyþórsson komu aftur inn í hóp hjá ÍBV.

 

 Jafnræði var með liðunum til að byrja með í leiknum,  Fjölnismenn samt skrefinu á undan fyrst um sinn. Góður kafli hjá okkar mönnum gerði það hins vegar að verkum að þeir náðu forystunni um miðbik hálfleiksins og leiddu svo í hálfleik 10-12. ÍBV hóf svo seinni hálfleikinn af miklum krafti og bættu jafnt og þétt við forskotið, sem var á tíma orðið 8 mörk snemma í hálfleiknum. Ólseigir Fjölnismenn gáfust hins vegar ekki upp og náðu að minnka muninn þegar leið á hálfleikinn. Á sama tíma slökuðu okkar menn á klónni í stað þess að gefa í og klára leikinn. Lokatölur 23-27.
 

Á heildina var litið var þessi leikur ekki merkilegur fyrir augað og verður seint talinn eftirminnilegur. Ljós punktur var þó frammistaða Kolla í markinu sem varði 23 skot í leiknum.  Þá kætti undirritaðann að sjá Sindra Ólafsson skora með vippu (a la Halli Hannesar).

 

Næsti leikur er næstkomandi laugardag kl. 13:00 á heimavelli gegn ÍR. ÍR-ingar sitja á toppi deildarinnar um þessar mundir, 2 stigum á undan ÍBV, og hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu. Með sigri í leiknum geta okkar menn jafnað við ÍR að stigum á toppi deildarinnar og því þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi leiksins. Fjölmennum því í gamla salinn á laugardag og styðjum okkar menn til sigurs.

 

Mörk ÍBV gegn Fjölni: Vignir 6, Sindri Ólafs 5, Leifur 3, Teddi 3, Gísli Jón 3, Siggi Braga 2, Andri Heimir 2, Grétar Þór 1 og Maggi Stef 1. Kolli varði 23 bolta.

 

 

Pálmi Harðarson skrifar frá borg óttans.