Handbolti - Góður sigur í Garðabæ.

24.okt.2011  08:50
Strákarnir okkar sigruðu í gær Stjörnuna í Garðabæ. Stjarnan hafði styrkt sig mikið fyrir veturinn og greinilegt að þeir ætluðu sér það sama og ÍBV, þ.e.a.s sigur í deildinni. Það var því nokkuð ljóst að bæði lið settu þennan leik upp sem fjögura stiga leik.

Jafnræði var með liðunum nánast allan leikinn þó hafði ÍBV yfirhöndina megnið af honum, samt aldrei meira en 3 mörk. Þegar um 15 mínútur voru eftir hafði Stjarnan snúið taflinu við og leiddu með 2 mörkum. Þá tók við góður kafli þar sem Kolli varði mjög vel og sóknarleikurinn gekk betur. Það fór svo að ÍBV sigraði með 3 marka mun 28-31. Frábær sigur á erfiðum útivelli.
 
Liðið er því með fullt hús eftir 4 leiki og situr á toppnum með 8 stig. Einn leikur er eftir í fyrstu umferð en  við tökum á móti Fjölni nk laugardag. Stákarnir þurfa þó að leika einn leik áður en að honum kemur því á miðvikudaginn halda þeir aftur í víking (í orðsins fyllstu) því þá spila þeir í 32 liða úrslitum bikarsins á móti Víkingum í Reykjavík.