Handbolti - Magnús og Ester spila með ÍBV næsta vetur

14.maí.2011  12:21
Magnús Stefánsson, sem lék með úrvalsdeildarliði Fram í vetur, skrifaði nú rétt í þessu undir eins árs samning við 1. deildarlið ÍBV. Magnús hefur verið lykilmaður í liði Framara undanfarin ár en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Eyjamenn falast eftir honum, eins og Magnús Bragason sagði við undirritunina. Unnusta Magnúsar, Ester Óskarsdóttir, sem lék með ÍBV í vetur, framlengdi við sama tækifæri samningi sínum hjá ÍBV um eitt ár.
Mikil áhersla var lögð á það hjá ÍBV að halda Ester enda hefur liðið nú þegar misst tvo lykilmenn, þær Heiðu Ingólfsdóttur, sem gekk í raðir Fylkis og Guðbjörgu Guðmannsdóttur, sem er ólétt.
 
"Það skipti miklu máli fyrir okkur að Ester haldi áfram með ÍBV. Um tíma leit út fyrir að við værum að missa hana frá okkur. En þegar upp var staðið þá náðum við ekki bara að landa samningi við hana, heldur einnig kærasta hennar Magnús Stefánsson en það er fjórða eða fimmta tilraun hjá okkur til að fá hann í ÍBV," sagði Magnús Bragason, formaður handknattleiksdeildar ÍBV. Hann sagði ennfremur að með þessu væri ÍBV að senda þau skilaboð, fyrir bæði karla- og kvennaliðið að þeir ætli sér að ná langt með bæði liðin.