Handbolti - Glæsilegur sigur á Vikingum

02.apr.2011  12:32

Sæti í umspili tryggt

Eyjamenn tryggðu sér í gærkvöld sæti í umspili Íslandsmótsins um eitt laust sæti í úrvalsdeild næsta vetur.  ÍBV lagði Víking að velli í kvöld, 32:22 en með því tryggðu Eyjamenn sér í það minnsta fjórða sæti deildarinnar.  Reyndar eiga Eyjamenn enn möguleika á þriðja sætinu og leika hreinan úrslitaleik um sætið gegn Stjörnunni í Garðabæ um næstu helgi.  Stjarnan, sem er í þriðja sæti, dugir jafntefli úr þeim leik.
Leikurinn í gærkvöld var afbragðs skemmtun fyrir fjölmarga áhorfendur sem högðu lagt leið sína í Íþróttamiðstöðina.  Stuðningsmenn ÍBV voru meðvitaðir um mikilvægi leiksins og tóku virkan þátt í leiknum með hrópum og köllum þannig að stemmningin var afar góð.  Leikmenn ÍBV voru líka fljótir að taka við sér því þeir tóku strax völdin á vellinum, skoruðu hvert markið á fætur öðru og náðu góðu forskoti.  Reyndar var það fyrst og fremst fantagóð vörn sem sló Víkinga út af laginu og sem dæmi höfðu gestirnir aðeins skorað fjögur mörk þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, og staðan 10.4 þannig að Róbert Sighvatsson, þjálfari þeirra neyddist til að taka leikhlé til að reyna hrista sína leikmenn í gang.  Það gekk að hluta eftir því munurinn hélst í sex mörkum það sem eftir lifði hálfleiksins og í leikhléi var staðan 16:10 fyrir ÍBV.
 
Eyjamenn skoruðu svo þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks en Víkingar neituðu að gefast upp og svöruðu með fjórum mörkum í röð.  Eyjamenn náðu hins vegar tíu marka forystu um miðjan hálfleikinn og staðan orðin afar erfið fyrir gestina.  Leikmenn ÍBV þurftu ekki að hafa mikið fyrir því að halda forystunni og lokatölur eins og áður sagði 32:22.
 
Eins og áður sagði var leikurinn frábær skemmtun.  Leikmenn ÍBV virðast vera farnir að finna sig á ný eftir slakt gengi undanfarna mánuði.  Strákarnir geisla af sjálfstrausti og spila samkvæmt því.  Og það besta er að þeir hafa gaman af því að spila handbolta.  Það getur skilað liðinu langt.
 
Staðan er nú þannig að Grótta er búið að tryggja sér efsta sæti 1. deildar og ÍR verður í öðru sæti.  Það skýrist svo í síðustu umferðinni hvort ÍBV nær að stela þriðja sætinu af Stjörnunni þegar liðin mætast í Garðabæ en núna munar tveimur stigum á liðunum.  ÍBV dugir ekkert minna en að vinna Stjörnuna til að ná þriðja sætinu en Garðbæingum dugir jafntefli.  Þá enda Afturelding í næst neðsta sæti úrvalsdeildarinnar og tekur því þátt í umspilinu en Selfoss fellur beint niður.
 
Mörk ÍBV: Leifur Jóhannesson 7, Davíð Þór Óskarsson 7, Vignir Stefánsson 7, Bragi Magnússon 3, Grétar Þór Eyþórsson 3, Sigurður Bragason 2, Gísli Jón Þórisson 1, Birkir Már Guðbjörnsson 1, Brynjar Karl Óskarsson 1.
Varin skot: Kolbeinn Arnarson 9, Þorgils Jónsson 12.
 
Eyjafréttir greindu frá