Kvöldið byrjaði á að snillingarnir Einar Björn Árnason og Hjálmar Baldursson töfruðu fram margrétta veisluhlaðborð. Fengu þeir mikið lof fyrir og voru gestir á einu máli að maturinn hefði verið frábær.
Veislustjórn var í höndum Sólmundar Hólms rithöfundar og skemmtikrafts. Hann er þekktastur fyrir að hafa ritstýrt ævisögu Gylfa Ægissonar. Hann brá sér í ýmis gerfi enda góð eftirherma, tók t.d. Gylfa Ægis og Pálma Gunn.
Leikmenn ÍBV voru með spurningakeppni eftir borðhald. Þá tók við búningauppboð og voru keppnisbúningar þeirra Björgvins Páls Gústavssonar og Kára Kristjánssonar boðnir upp. Síðan kom Hannes Gústafsson frá knattspyrnuráði og bauð upp búninginn sem Gunnar Heiðar átti að leika í í sumar. Fór það svo að formaður ÍBV-íþróttafélags Jóhann Pétursson bauð hæst og fékk búninginn. Hannes flutti skemmtilega ræðu þó að hún fjallaði um dapurt mál eða einelti sem hann varð fyrir í æsku. Gerði hann grín af þeim sem leggja aðra í einelti og sagði þá oft líða verr en þeim sem fyrir eineltinu verða. Þá kom hann inn á starf ÍBV og það góða samstarf sem þar ríkir. Endaði hann síðan upp á borði og tók 30 armbeyjur á annari hendi.
Eftir búningauppboð komu þeir Dolli og Doddi aftur saman en það voru 20 ár síðan þeir komu fram síðast, en það var á lokahófi handboltans þegar ÍBV varð Bikarmeistari í handbolta. Stjórnuðu þeir BINGO-inu.
Annar armur öxulsins úr Bikarleiknum fræga, Jóhann Pétursson formaður, hélt síðan grimma ræðu og hjó þar mann og annan í herðar niður. Má segja að hann hefði verið öxull hins illa þetta kvöld. En þeim sem ekki lentu fyrir orrahríð Jóhanns var skemmt og þá var tilganginum náð.
En í heildina var þetta ljúf kvöldstund með söng og gríni. Gestir voru sjálfum sér og sínum til fyrirmyndar og allt gert í þágu ÍBV.
Megi allir sem að þessu kvöldi komu hafa þökk fyrir.
Myndir...