Handbolti - Stelpurnar töpuðu fyrir Val

19.mar.2011  18:34

Ester með 11 mörk

Leikur ÍBV og Vals í síðustu umferð N1 deildar kvenna hafði ekki mikla þýðingu.  Valsstúlkur voru þegar búnar að tryggja sér efsta sætið og ÍBV átti ekki lengur möguleika á sæti í úrslitum.  Engu að síður var leikurinn ágætis skemmtun en sem fyrr er getumunurinn á liðunum einfaldlega of mikill til að ÍBV ætti möguleika á sigri.  Lokatölur urðu 23:35 en staðan í hálfleik var 14:19.
Það var þó ekki þannig að Valsstúlkur þyrftu ekki að hafa fyrir sigrinum.  Eftir að hafa skorað þrjú fyrstu mörkin, hélst munurinn í þremur mörkum lengst af í fyrri hálfleik eða allt þar til Valur breytti stöðunni úr 8:11 í 10:17.  Eyjastúlkur tóku þá aftur við sér og náðu að minnka muninn niður í fimm mörk fyrir leikhlé.
 
Um leið og Deildar- og Íslandsmeistararnir slökuðu á, söxuðu heimastúlkur á forskotið en Ester Óskarsdóttir var í miklu stuði í liði ÍBV og skoraði 11 mörk.  En eins og áður sagði, þá áttu Eyjastúlkur í raun aldrei möguleika á sigri gegn ógnarsterku liði Vals.
 
ÍBV endaði tímabilið í sjötta sæti N1 deildar af tíu liðum.  Liðið náði um tíma fjórða sætinu en náði ekki að halda því til loka.  Fjögur efstu lið deildarkeppninnar fara í úrslitakeppnina.
 
Mörk ÍBV: Ester Óskarsdóttir 11, Guðbjörg Guðmannsdóttir 3, Þórsteina Sigurbjörnsdóttir 2, Aníta Elíasdóttir 2, Sigríður Lára Garðarsdóttir 2, Rakel Hlynsdóttir 1, Sandra Gísladóttir 1, Gígja Óskarsdóttir 1.
Varin skot: Berglind Dúna Sigurðardóttir 11.
 
Tekið af eyjafrettir.is