Í upphafi leiks virtust Eyjamenn ætla að stinga af því þeir komust í 5:2 en FH-ingar náðu hins vegar fljótlega áttum og náðu að minnka muninn niður í eitt mark. Lengst af munaði einu til tveimur mörkum í fyrri hálfleik en Eyjamenn skoruðu þó síðustu tvö mörk hálfleiksins og höfðu yfir 15:12.
FH-ingar héldu áfram að gera Eyjamönnum lífið leitt í síðari hálfleik og börðust eins og ljón. Leikmenn ÍBV áttu erfitt uppdráttar sóknarlega í síðari hálfleik en varnarleikurinn skánaði hins vegar mikið. FH-ingar náðu hins vegar þriggja marka forystu 20:23 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum en þá tók Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV leikhlé og las yfir hausmótunum á leikmönnum sínum. Ræðan virtist skila tilætluðum árangri því Eyjamenn jöfnuðu metin og komust svo yfir 24:23. Í hönd fór svo æsispennandi lokakafli þar sem liðin skiptust á að skora. Allt ætlaði upp úr að sjóða undir lokin þegar FH-ingar fóru í sína síðustu sókn, einu marki undir. Eyjamenn framkvæmdu ranga skiptingu en það kom ekki að sök því aðeins var sekúnda eftir af leiknum og síðasta skot FH-inga, úr aukakasti endaði í varnarvegg ÍBV.
Þrátt fyrir að handboltinn hafi ekki verið í háum gæðaflokki lengst af, þá var leikurinn hin besta skemmtun.
Mörk ÍBV: Sigurður Bragason 8, Gísli Jón Þórisson 4, Grétar Eyþórsson 3, Davíð Þór Óskarsson 3, Leifur Jóhannesson 2, Brynjar Karl Óskarsson 2.
Varin skot: Kolbeinn Arnarson 10, Þorgils Orri Jónsson 7.