Handbolti - Mikilvægur sigur á Fylki

17.jan.2011  12:23
Kvennalið ÍBV vann í dag góðan sigur á Fylki þegar liðin mættust í Eyjum.  Lokatölur urðu 27:24 en staðan í hálfleik var 14:13 ÍBV í vil.  Leikurinn var lengst af í járnum, gestirnir úr Árbænum byrjuðu betur og náðu m.a. fjögurra marka forystu í byrjun leiks, 5:9 en Eyjastúlkur unnu sig aftur inn í leikinn og komust yfir undir lok fyrri hálfleiks.  Í síðari hálfleik munaði sjaldnast meira en tveimur mörkum á liðunum eða allt þar til undir lokin að Eyjastúlkur lönduðu sigrinum góða.
Eins og áður sagði byrjaði leikurinn ekki vel fyrir ÍBV.  Í liði þeirra er afar öflug skytta, Sunna Jónsdóttir sem fór oft á tíðum illa með vörn ÍBV en Sunna skoraði 9 mörk fyrir Fylki.  En um leið og varnarleikurinn lagaðist hjá ÍBV, minnkaði munurinn og Þórsteina Sigurbjörnsdóttir kom ÍBV yfir úr vítaskoti undir lok fyrri hálfleiks, 13:12 en Eyjastúlkur héldu muninum út hálfleikinn og staðan var 14:13 þegar flautað var til leikhlés.
 
Síðari hálfleikur var í jafn og spennandi allan tímann og spennan mikil.  Liðin skiptust á að skora, Fylkir komst yfir um miðjan hálfleikinn, 19:20 en héldu ekki forystunni lengi því ÍBV komst svo 21:20 og létu ekki forystuna af hendi það sem eftir lifði leiks.  Fylkir skoraði svo aðeins tvö mörk gegn fjórum mörkum ÍBV á lokakaflanum og sigur Eyjastúlkna því staðreynd, 27:24.
 
Mörk ÍBV: Ester Óskarsdóttir 7, Þórsteina Sigurbjörnsdóttir 6, Aníta Elíasdóttir 5, Guðbjörg Guðmannsdóttir 5 og Renata Horvath 4.
Varin skot: Heiða Ingólfsdóttir 19.