ÍR-ingar fögnuðu þriggja marka sigri í Eyjum í dag. Fyrir leikinn sátu liðin í 3. og 4. sæti 1. deildar og stigin tvö sem voru í boði, voru báðum liðum afar mikilvæg. Eyjamenn fóru mjög illa af stað í leiknum, ÍR-ingar komust í 1:5 og má segja að þessi slæma byrjun hafi komið Eyjamönnum um koll. Leikmenn ÍBV náðu þó að jafna metin þegar skammt var til leiksloka en komust ekki lengra en það og ÍR-ingar skoruðu fjögur mörk gegn einu mark ÍBV á lokakaflanum.
Leikmenn ÍBV voru varla með fyrstu fimmtán mínútur leiksins og ÍR-ingar voru ekki í neinun vandræðum með að finna leiðina í gegnum óþétta vörn heimamanna. Kolbeinn Arnarson, markvörður ÍBV var ekki öfundsverður af hlutskipti sínu enda varði hann aðeins eitt skot fyrsta stundarfjórðunginn. En Þorgils Orri Jónsson tók þá stöðu hans á milli stanganna og við það virtist færast aukinn kraftur í Eyjamenn. Þorgils varði vel í leiknum, alls 17 skot og var besti leikmaður ÍBV-liðsins. Smá saman náðu Eyjamenn að saxa á forskotið en í hálfleik munaði þó enn þremur mörkum, 11:14 eftir að ÍR-ingar höfðu skorað síðasta markið úr vítakasti þegar leiktíminn var úti.
Síðari hálfleikur var svo í járnum allan tímann en ÍR-ingar voru þá ávallt skrefinu á undan. Eyjamenn fengu fjölmörg tækifæri til að komast enn betur inn í leikinn en það virtist allt vera á móti Eyjamönnum í dag. Leikmenn ÍBV eiga þó heiður skilið fyrir að gefast ekki upp þrátt fyrir mótlætið og halda áfram enda náði Vignir Stefánsson að jafna metin í 19:19 þegar skammt var til leiksloka. En þá tóku við enn ein mistökin, ÍBV fékk brottvísun fyrir kjaftbrúk og voru um tíma tveimur færri. ÍR-ingar nýttu sér það ágætlega, skoruðu þrjú næstu mörk og úrslit leiksins ljós. Lokatölur urðu 20:23.
Eins og áður sagði var mótbyr Eyjamanna talsverður í dag. Bæði gerðu þeir sig seka um klaufaleg mistök, nýttu ekki dauðafæri, skutu í tréverkið og fengu klaufalegar brottvísanir. Hins vegar verður ekki hjá því litið að dómarapar leiksins átti slæman dag. Ósamræmið var algjört og í raun voru dómararnir einfaldlega lélegir. Það bitnaði mjög á ÍBV-liðinu, mun minna á ÍR-ingum.
Næsti leikur ÍBV er á útivelli á móti toppliði Gróttu. Eyjamenn sýndu í dag að þeir eru að vinna sig upp úr þeim öldudal sem liðið hefur fallið í en ÍBV hefur aðeins fengið eitt stig úr síðustu fjórum leikjum sínum. En haldi liðið á sömu braut og það gerði síðustu 45 mínútur leiksins í dag, þá eiga stigin eftir að skila sér.
Mörk ÍBV:
Vignir | 6 |
Grétar Þór | 5 |
Leifur | 3 |
Brynjar Karl | 3 |
Sindri | 1 |
Bragi | 1 |
Birkir Már | 1 |
Varin skot: | |
Þorgils | 17 |
Kolbeinn | 1 |