Handbolti - Jafntefli gegn HK

06.nóv.2010  16:41
ÍBV og HK skildu jöfn í N1 deild kvenna í dag en liðin áttust við í Eyjum.  Lokatölur urðu 27:27 en HK jafnaði úr víti þegar tæp mínúta var eftir.  Það gaf hins vegar alls ekki rétta mynd af gangi mála í leiknum í dag því HK var nánast með leikinn í hendi sér fyrstu 45 mínúturnar.  En síðasta stundarfjórðunginn tóku Eyjastúlkur við sér, röðuðu inn mörkunum og áttu góða möguleika á að vinna. En heppnin var ekki með ÍBV, HK jafnaði úr víti og niðurstaðan því jafntefli.
 

Leikmenn ÍBV voru algjörlega úti á þekju framan af í leiknum.  Varnarleikur liðsins var í molum og markvarslan eftir því en sóknarleikurinn var ekki mikið skárri.  Lengst af munaði 3-4 mörkum í fyrri hálfleik en í upphafi þess síðari komst HK sjö mörkum yfir 14:21 og útlitið afar svart.
 
En þá breytti Svavar Vignisson, þjálfari ÍBV um varnaraðferð, fór úr 6-0 vörn í 5 1 og það breytti einfaldlega leiknum.  Heiða Ingólfsdóttir, markvörður ÍBV varði aðeins sex skot í fyrri hálfleik en tók upp á því síðustu tuttugu mínútur leiksins að verja hvert skotið á fætur öðru og varði alls 14 skot í síðari hálfleik, þar af eina víti.  Fyrir vikið fengu Eyjastúlkur tækifæri á að sækja hratt upp völlinn og það hentar ÍBV liðinu best.  Munurinn fór úr 14:21 í 21:23 og allt í einu komin spenna í leikinn.  Ester Óskarsdóttir jafnaði metin fyrir ÍBV þegar fimm mínútur voru eftir og allt á suðupunkti í íþróttahúsinu.  Guðbjörg Guðmannsdóttir kom ÍBV svo í 27:26 þegar þrjár og hálf mínúta var yfir.  En í næstu sókn gerði Renata Horvath klaufaleg mistök þegar hún braut á hornamanni HK en það varð til þess að hún fékk tveggja mínútna brottvísun, þegar innan við tvær mínútur voru eftir.  Renata var allt annað en ánægð með dómarana, lét þá heyra það og uppskar aðeins rautt spjald.  HK jafnaði metin úr vítakastinu og einum færri tókst Eyjastúlkum ekki að skora sigurmarkið en héldu þó jafnteflinu, sem var meira en stefndi í framan af leik.
 
Mörk ÍBV: Guðbjör Guðmannsdóttir 9, Ester Óskarsdóttir 6, Renata Horvath 4, Aníta Elíasdóttir 3, Þórsteina Sigurbjörnsdóttir 2, Hildur Dögg Jónsdóttir 2, Sandra Gísladóttir 1.
Varin skot: Heiða Ingólfsdóttir 20/1.