Eyjamenn byrjuðu vægast sagt mjög illa í leiknum. ÍR-ingar komust í 1:5 áður en Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV neyddist til að taka leikhlé til að hrista lífi í leik liðsins. Það gekk ágætlega því Eyjamenn héldu jöfnu út hálfleikinn og náðu að minnka muninn niður í þrjú mörk. Staðan í hálfleik var 13:16. Sóknarleikurinn er helsta vandamál Eyjapeyja í upphafi leiktíðar en nú brá svo við að vörn og markvarsla var ekki upp á sitt besta og því í raun talsvert afrek að vera aðeins þremur mörkum undir í hálfleik.
Sóknarleikurinn hélt áfram að ganga illa hjá ÍBV í seinni hálfleik en vörnin var skárri og þegar leið á hálfleikinn fór Kolbeinn Arnarson að verja vel, sérstaklega eftir að hann fór úr síðbuxunum og stóð á milli stanganna í stuttbuxum. En þessi góði kafli varð til þess að Eyjamenn söxuðu á forskot ÍR-inga og hefðu, með betri sóknarnýtingu, náð að snúa leiknum sér í vil. En þegar þrjú til fjögur vítaskot fara forgörðum og dauðafærin nýtast ekki, er ekki von á góðu. Enda kom það í ljós því Eyjamenn náðu aldrei að brúa það bil að jafna metin.
Undir lokin fékk svo Davíð Þór Óskarsson réttilega rautt spjald þegar hann togaði hinn síunga þjálfara ÍR-inga, Bjarka Sigurðsson niður í gólfið eftir að sá síðarnefndi hafði skorað. Bjarki var reyndar ekki alveg saklaus og fékk tveggja mínútna brottvísun en við uppátæki þeirra félaga sauð upp úr á vellinum. En eftir smá átök náðist að leysa úr krísunni og klára leikinn. Lokatölur urðu eins og áður sagði 21:25 en ÍR-ingar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins þegar Eyjamenn höfðu gefist upp.
Mörk ÍBV: Brynjar Karl Óskarsson 5, Sindri Ólafsson 3, Vignir Stefánsson 3, Leifur Jóhannesson 3, Grétar Þór Eyþórsson 3, Theodór Sigurbjörnsson 2, Davíð Þór Óskarsson 1, Bragi Magnússon 1.
Varin skot: Kolbeinn Arnarson 7, Haukur Jónsson 6.