ÍBV vann í dag sannkallaðan baráttusigur á Stjörnunni í 1. deild karla en liðin áttust við í Eyjum. Stjarnan var yfir allan tímann, allt þar til um tíu mínútur voru til leiksloka að Eyjamenn náðu að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum. Forystuna létu þeir ekki af hendi og unnu að lokum 21:18 í mjög kaflaskiptum leik. Hinn ungi og efnilegi markvörður ÍBV, Haukur Jónsson kom inn á undir lok fyrri hálfleiks, lokaði hreinlega markinu á köflum og varði alls 17 skot í leiknum.
Eyjamenn hafa því unnið tvo fyrstu leiki sína í 1. deildinni og til alls líklegir í vetur.
Leikurinn sjálfur var hins vegar lítið fyrir augað framan af. Eyjamenn voru algjörlega á hælunum fyrstu tuttugu mínúturnar, sérstaklega sóknarlega en þegar 23 mínútur voru búnar af leiknum, þá hafði ÍBV aðeins skorað 4 mörk. En varnarleikurinn var í góðu lagi, þótt markvarslan hafi ekki fylgt með framan af leik og þótt útlitið hafi ekki verið gott í fyrri hálfleik þá héldu Eyjamenn sér inn í leiknum með mikilli baráttu. Mestur varð munurinn í fyrri hálfleik fimm mörk, 4:9 en leikmenn ÍBV hrukku í gang síðustu tíu mínúturnar og staðan í hálfleik var 8:10.
Leikmenn ÍBV héldu áfram á sömu braut í síðari hálfleik og jöfnuðu metin 10:10 strax í upphafi. En þá kom slæmur kafli hjá ÍBV og Stjarnan náði fjögurra marka forystu 11:15. En þá hrukku Eyjamenn aftur í gang, skoruðu næstu fjögur mörkin og jöfnuðu metin. Strákarnir breyttu svo stöðunni úr 17:17 í 21:17 og unnu sannkallaðann baráttusigur.
Eins og áður sagði fór markvörðurinn ungi Haukur Jónsson fyrir sínu liði í dag og sýndu hreint frábæra takta á milli stanganna. Kolbeinn Arnarson, átti ekki jafn góðan dag en kom þó inn á í seinni hálfleik og varði mikilvægt víti. Leifur Jóhannesson var traustur og skoraði fimm mörk en Vignir Stefánsson skoraði alls sex mörk í leiknum, langflest úr hraðaupphlaupum í síðari hálfleik en mörk Vignis voru Eyjaliðinu afar dýrmæt.
Þá var stemmningin á áhorfendabekkjunum afar góð, sérstaklega undir lok leiks en um 300 áhorfendur voru á leiknum.
Mörk ÍBV: Vignir Stefánsson 6, Leifur Jóhannesson 5, Einar Gauti Ólafsson 3, Brynjar Karl Óskarsson 2, Davíð Þór Óskarsson 2, Grétar Eyþórsson 1, Sindri Ólafsson 1, Theodór Sigurbjörnsson 1.
Varin skot: Kolbeinn Arnarson 4/1, Haukur Jónsson 17.