Tíðindamaður Eyjafrétta sem var á leiknum sagði að Eyjamenn hefðu verið sterkari aðilinn fyrstu tuttugu mínúturnar. ÍBV leiddi með einu til tveimur mörkum en svo snerist leikurinn við og heimamenn leiddu það sem eftir lifði leiks. Í seinni hálfleik munaði 2-4 mörkum á liðunum, munur sem Eyjamenn náðu aldrei að brúa.
Bestur hjá ÍBV var Arnar Pétursson en Sigurður Bragason var markahæstur.
Síðasti leikur ÍBV verður á heimavelli miðvikudaginn 7. apríl þegar Eyjamenn taka á móti Víkingum, sem í kvöld tryggðu sér 4. sæti deildarinnar og um leið sæti í umspilinu. En 7. apríl skýrist það hvort Afturelding eða Selfoss leikur í umspilinu en þessi lið mætast einmitt á Selfossi í hreinum úrslitaleik um 1. sætið, sem gefur sjálfkrafa rétt á sæti í úrvalsdeild næsta vetur.
Daginn eftir síðustu umferðina í 1. deild, fimmtudaginn 8. apríl skýrist ennfremur hvaða úrvalsdeildarlið endar í 7. og næst neðsta sæti og leikur því í fjögurra liða umspili ásamt 1. deildarliðunum þremur. Stjarnan, Fram og Grótta eru í harðri fallbaráttu en eitt þessara liða fellur beint í 1. deild, eitt fer í umspilið en eitt tryggir sér áframhaldandi sæti í úrvalsdeild að ári.