Handbolti - Sanngjarn sigur ÍBV

27.mar.2010  18:23
Eyjamenn báru sigur úr býtum í Suðurlandsskjálfanum þegar suðurlandsliðin ÍBV og Selfoss áttust við í Eyjum í dag.  Eyjamenn voru yfir allan tímann og verður sigur þeirra að teljast nokkuð sanngjarn.  Þó var smá spenna undir lok leiksins þegar Selfyssingum tókst að minnka muninn úr 30:25 í 30:28 en Eyjamenn skoruðu síðustu tvö mörk leiksins og fögnuðu vel og innilega í leikslok.  Þetta er sjötti sigur ÍBV í röð en síðast töpuðu Eyjamenn einmitt gegn Selfyssingum, á Selfossi í miklum baráttuleik.  Áhorfendur létu vel í sér heyra og Stalla hú mætti á svæðið þannig að stemmningin var mjög góð í Eyjum í dag.
Eins og áður sagði voru Eyjamenn yfir allan tímann ef frá eru taldar upphafsmínúturnar, þegar Selfyssingum tókst að hanga í Eyjamönnum.  Leikmenn beggja liða voru greinilega yfirspenntir á upphafsmínútunum enda var ekki mikið skorað á upphafsmínútunum.  Arnar Pétursson vakti sína menn með því að skora þrjú fyrstu mörk ÍBV en aðrir byrjuðu ekki fyrr en tíu mínútur voru búnar af leiknum.  Lengst af  var munurinn þrjú mörk í fyrri hálfleik en Selfyssingum tókst þó nokkrum sinnum að saxa á forskotið.  Eyjamenn juku það hins vegar jafn óðum en þegar átta mínútur voru eftir af fyrri hálfleik gerðist umdeild atvik þegar Sindri Haraldsson fékk beint rautt spjald fyrir eitthvað sem fæstir sáu.  Eftir því sem næst verður komist sagði Sindri eitthvað upphátt sem annar af tveimur dómurum leiksins taldi beint að sér og fyrir vikið var Sindra hent í bað.  Hins vegar virtist dómarinn hafa litla þolinmæði gagnvart Sindra því ekki var betur séð en að frá fyrstu mínútu hafi tiltekinn dómari tekið Sindra sérstaklega fyrir. En þrátt fyrir áfallið þá höfðu Eyjamenn yfir í hálfleik 15:12.
 
Síðari hálfleikur var kaflaskiptur en strax í upphafi hálfleiksins fékk Selfyssingurinn Einar Héðinsson beint rautt spjald fyrir olnbogaskot.  Eyjamenn byrjuðu hálfleikinn vel, náðu fljótlega fimm marka forystu en eins og í fyrri hálfleik, náðu Selfyssingar að saxa á forskotið og ná því niður í tvö mörk.  Þá tóku Eyjamenn aftur við sér og náðu muninum upp í fimm mörk þegar aðeins rúmar þrjár mínútur voru eftir.  En stuttu síðar var Leif Jóhannessyni vikið af leikvelli eftir klaufalegt leikbrot og Selfyssingar beittu pressuvörn.  Við þetta riðlaðist leikurinn, Selfyssingar unnu boltann hvað eftir annað og skoruðu þrjú auðveld mörk.  Á þessum leikkafla voru Eyjamenn dálitlir klaufar, hreyfðu sig ekki nóg og fyrir vikið lenti sá sem boltann hafði í talsverðum vandræðum.  En með baráttuna að vopni náðu Eyjamenn að sigla sigrinum örugglega í heimahöfn, lokatölur urðu 32:28 og leikmenn ÍBV héldu þar með áfram sigurgöngu sinni.
 
Næsti leikur er svo næstkomandi þriðjudag þegar Eyjamenn sækja Aftureldingu heim.  Málið er ekkert flókið, sá leikur er úrslitaleikur um annað sætið fyrir ÍBV.  Staðan í dag er þannig að Afturelding er efst með 27 stig, Selfoss í öðru með 26 og ÍBV í því þriðja með 24.  Aftureldinga á eftir að keppa við ÍBV (heima) og Selfoss (úti), Selfyssingar eiga Þrótt (úti) og Aftureldingu (heima) á meðan ÍBV á Aftureldingu (úti) og Víking (heima).  Það getur því enn allt gerst í toppbaráttunni.