Strákarnir hafa verið á góðri siglingu að undanförnu. Sigur gegn ÍR á útivelli 29-27 fyrir skömmu, þar sem Sindri Haraldsson fór á kostum, kom liðinu upp í fjórða sætið. Síðan lék liðið heimaleik við Fjölni á laugardaginn og vann stórsigur 38-16.
Nú erum við í þriðja sæti aðeins þremur stigum á eftir Aftureldingu og fjórum frá Selfossi, sem er efst.
Það var greinilegt að Eyjapeyjar vanmátu ekki andstæðinga sína í Fjölni. Meistaraflokksleikurinn kom í kjölfar leiks sömu liða í 2.flokki sem ÍBV vann 33-28, en leikur þeirra í Grafarvogi endaði með jafntefli.
Liðið mætti ákveðið til leiks og náði strax öruggri forystu. Svavar skipaði mönnum að keyra upp hraðann og skoruðum við mörg mörk með hraðaupphlaupum. Grétar var fljótur fram og kláraði upphlaupin örugglega. Hann skoraði 9 mörk. Leifur, sem hefur verið á mikilli framför í síðustu leikjum, gerði 8 mörk.
En það sem gladdi mest í þessum leik var að sjá þá sem hafa ekki verið að spila mikið í vetur. Óttar Steingrímsson kom inn í hægri skyttustöðuna og skoraði 6 mörk. Baldvin Þór Sigurbjörnsson lék einnig vel. Hann var sterkur í vörn og skilaði góðum mörkum af línunni. Þá lék hinn sautján ára gamli Haukur Jónsson í sínum fyrsta mfl.leik og varði vel. En og aftur sama klisjan; Þá var það liðsheildin sem skóp sigurinn.
Það er greinilegt að það er góður andi í ÍBV-liðinu og vonandi nýtum við jólin vel og komum sterkir í toppbaráttuna eftir áramót. Næstu leikir ÍBV eru: Heimaleikur gegn Þrótti 16.jan og útileikur á móti Selfossi 22.jan.
Mörk ÍBV:
Grétar | 9 |
Leifur | 8 |
Sigurður | 6 |
Óttar | 6 |
Baldvin | 4 |
Vignir | 1 |
Sindri Ó | 1 |
Sindri H | 1 |
Pálmi | 1 |
Björn | 1 |