Það var ekki margt sem benti til þess í fyrri hálfleik að ÍBV færi með sigurinn af hólmi þegar stelpurnar tóku á móti Fjölni/Aftureldingu í 2. deild Íslandsmótsins. Gestirnir voru mun sterkari í fyrri hálfleik og var engu líkara en að Eyjastúlkur hefðu engan áhuga fyrir leiknum. En stelpurnar mættu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og höfðu að lokum sigur 26:25.
Dæmið snerist í raun við í síðari hálfleik þegar Eyjastúlkur voru sterkari og höfðu lengst af frumkvæðið. En þeim gekk illa að hrista gestina af sér þannig að þegar ein mínúta var eftir, var staðan jöfn 25:25 og ÍBV með boltann. En Eyjastúlkur misstu boltann klaufalega frá sér þegar um tuttugu sekúndur voru eftir og allt í einu voru leikmenn Fjölnis/Aftureldingar með pálmann í höndunum. En Aníta Elíasdóttir sýndi mikinn baráttuhug þegar hún vann boltann af leikmanni gestanna, brunaði upp allann völlinn og tryggði sínu liði sigurinn þegar aðeins fjórar sekúndur voru eftir. Glæsileg tilþrif hjá Anítu og leikmenn ÍBV fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Mörk ÍBV:
Guðbjörg Guðmannsdóttir 6, Hekla Hannesdóttir 5, Anna María Halldórsdóttir 5, Aníta Elíasdóttir 5, Lovísa Árnadóttir 1, Rakel Hlynsdóttir 1, Sandra Gísladóttir 1, Andrea Gísladóttir 1, Hildur Sigurðardóttir 1.
Birna Þórsdóttir stóð allan tímann í markinu og varði mjög vel í síðari hálfleik.